10.1.08

Skóli!

Jæja, þá er fyrsti skóladagurinn upp runninn og það sem fyrir liggur í dag er að kanna tvo kúrsa af þremur sem ég ætla að reyna að klára á þessari önn. Samtals 12 og hálf eining, þykir ekki sérlega merkilegt í meðalári, en kannski slatti á önn barnsburðar. En 20 einingarnar sem ég tók í nefið á síðustu önn (reyndar með 7 í ritstjórn og hræðileg skrif, sem er nú næstum bastarður) gerðu mér upp hugrekki.

Fyrstu góðu fréttirnar í dag eru þær að með opnun hins ömurlega háskólatorx er búið að opna aftur Alexanderstíginn, svo nú getur maður labbað nokkuð beint á milli bygginga aftur. Sem er eins gott. Ég er mjög hægfara í dag og þyrfti annars mikkklu meira en 10 mínútur til að ferðast á milli Árnagarðs og Aðalbyggingar. En það þarf ég að gera á eftir.

Aðrar skemmtilegar fréttir eru þær að nú er ég búin með öll skyldunámskeið svo að á þessari önn er ég bara að leika mér. Núna er að byrja Adaptations í enskudeild hjá Martin Regal og svo á eftir er það hið bráðspennandi námskeið: Íslensk nútímaleiklist í ljósi leiklistarkenninga 20. aldar. Nokkuð sem flestum finnst vafalaust hljóma minna spennandi en mér. Og svo er eitt stubbnámskeið um David Mamet. Líka í enskudeild hjá Regal. En það verður ekki fyrr en á miðvikudaginn.
---
Jahér. Hann Martin Regal er næstum orðinn alveg bandsköllóttur. Það er greinilega langt síðan ég var síðast í háskóla...

---

Ókeiókei. Hef fyrirgefið háskólatorgi tilvist sína. Regal talaði hratt og hleypti okkur snemma út. Svo staðsetning háskólatorgs var þar með orðin snilld. Akkúrat í leiðinni. Svo ég gat rölt mér inn í Bóksöluna og keypt bækur annarinnar. Sem reyndust bara vera tvær. Og það var ekki einu sinni röð að ráði í Bóksölunni. (Huxanlega vegna þess að allir eru ennþá að leita að henni.) Háskólatorg inniheldur líka hina stórkostlegu kaffiteríu Hámu. Óstjórnlega girnilegur matur og svakalega rúmgóður salur þar sem maður getur Hámað í sig algjörlega án þess að reka olnbogana í fimm manns í kringum sig. Sem er nýnæmi í kaffistofum þessarar stofnunar. Og hentar vel fólki með mitt núverandi vaxtarlag.

Hér eru líka... allir, virðist vera. Og hrægammarnir hafa fundið það út. Við borð fyrir framan Bóksöluna stendur fólk og pínir upplýsingar um námsmannaþjónustu Kaupþings uppá fólk. Þegar ég var á leiðinni út aftur voru nokkrir æstir viðskiptafræðinemar búnir að króa sölumennina af og voru að segja þeim til syndanna með hversu mikil svik og prettir þessi "námsmannaþjónusta" væri nú. Töluðu um prósentur og vexti og "rippoff". Mér var skemmt.

En, ef einhver geðsjúklingur ætlar að erlendri fyrirmynd að koma og skjóta eins marga og hann kemst yfir, þá er þetta algjörlega staðurinn. Bara fyrir innan dyrnar næði maður öllum Hámugestum, viðskiptavinum Bóksölunnar og röðinni fyrir framan Afgreiðsluboðið Ógurlega með nemendaskrá og öllu hinu. (Sem hefur heldur lengst síðan um daginn.) Og sölumönnum Kaupþinx.

Þá er að finna stofu 225 í Aðalbyggingunni. Ef þetta er stofa 11 í enn einu dulargervinu... verð ég bara ekkert hissa. En frekar pirruð.
---
Hef aldrei áður notað lyftuna í Aðalbyggingunni. Hún er sennilega eldri en húsið og það er guðfræðilykt í henni.
---
Neibb, þetta er fyrrverandi stofa 7. Og stólarnir hér hafa meiraðsegja skánað!
---
Sof. En hvað mér leiðist svona endaleysuumræða eins og "hvað er leiklist".
Hrjót og leiðst. En þetta er óskaplega kjaftaglaður bekkur sem nennir ótrúlega mikið að taka þátt í þessu.
Og eftir að hafa horft á heimildamyndina með Stephen Fry um daginn finnast mér allir vera bæpólar.
Þessi Trausti er bæði yngri og minna skeggjaður en ég hélt.
---
Einn leikhúsfrömuður í bekknum heldur að erfitt gæti orðið að finna 4-6 frumsamin íslensk verk til að sjá á önninni. Ég veit nú um leikhús sem kemur líklega til með að gera annað eins á einu kvöldi. Huxanlega tvisvar.

1 ummæli:

Ásta sagði...

Hah! Þú sópar þessu liði auðvitað beint í Möguleikhúsið í tvígang. Þá ætti nú miklu að vera reddað. Annars dauðlangar mig á öll þessi námskeið líka. Er greinlega algjörlega búin að gleyma hvað hægt var að gera skemmtilegt efni hrútleiðinlegt.