22.1.08

Heitt - kalt - heitt - kalt

Sjúkraþjálfarinn minn skammaði mig í gær. Ég er eitthvað föst í vinstra herðablaðinu og öll að drepast þeimmegin og mætti í gær og bar mig illa. Var enn að versna, en var samt búin að hnoðast og hamast og jóga og sunda og teygja eins og égveitekkihvað. Sjúkkan sagði að ég væri að gera alltof mikið, svo nú á ég bara að hanga heima í tvo til þrjá daga og hita og kæla öxlina til skiptis. Spennandi. 

Svo var hún fyndin. Hún var eitthvað að spá í hvort væri kalt inni hjá henni en ég sagði henni að það þýddi ekkert að spurja mig, mér væri alltaf heitt þessa dagana. 
Þá sagði hún: Já, þú ert auðvitað með kveikt á ofninum.
Hihi.

En það er rok og Egilsstaðafærð úti svo ég hætti mér ekki útúr húsi. Enda bara gaman að vera heim og hlusta á fréttirnar í dag. Hasar í pólitíkinni og veðrinu og svona.

Annars þarf ég líklega að fara að senda kennurunum mínum ímeila með hugmyndum að sjálfstæðum rannsóknarverkefnum til að klára á þessari önn. Það er líklega bjartsýni að reikna með að ég mæti mikið meira. Er orðin illhreyfanleg og illa boðið til setunnar. Fer að hlakka reglulega mikið til fæðingar. Þrátt fyrir hrakfarir þeirrar síðustu.

Það verður allavega alveg óstjórnlega gaman þegar ég get aftur beygt mig og sveigt eins og mér sýnist, labbað eins og ég vil og sveiflað Freigátunni í kringum mig. Hins vegar er möst að laga axlargerpið áður en ég þarf að fara að brúka það í að halda á ungabarni allan daginn.

Bezt að skipta í heitt.

1 ummæli:

Elísabet Katrín sagði...

Ég fékk einmitt einhvern óþverra í öxlina þegar ég var ólétt af Kristjáni...tilviljun ha...og var svona fryst og hituð til skiptis. Svo notaði hún reyndar rafmagn á mig líka (sjúkraþjálfarinn sko) sagði að það væri allt í lagi fyrir ófædda barnið, maður spyr sig ;)
Good luck with everything darling...góð í ensku ;) tíhí