15.5.08

Búin að skila ritgerðinni

og finnst ég hálftilgangslaus...
Það er alveg gríðarlega langt síðan ég hef ekki verið á deddlæni með eitthvað.
Merkileg tilfinning.

Ekki að það sé ekki nóg að gerast. Búferlaflutningar innan heimilis planaðir um helgina. Smábátur flytur í verelsið sem áður hét "skrifstofugestaherbergið" og það flytur aftur í gamla herbergið hans. Reyndar eru merkilega litlir húsgagnaflutningar í þessu, Smábátur fær ofurmublu sem er allt í einu, rúm, skrifborð, skápur og ótal skúffur. Gömlu húsgögnin hans skipta um hlutverk og verða skrifstofugestaherbergishúsgögn. Með bjartsýnisstærðfræði ætla ég síðan að koma öðru fyrir annarsstaðar í íbúðinni. Huxanlega þarf samt að láta nokkra hluti minnka. Eða hverfa. Og ég þarf líka að flytja Báru systur með skrifstofugestaherberginu, hún verður á svæðinu, reyndar stödd í Eyjum.

Og, best að plögga meira af sköpunarverkum fjölskyldunnar. Það á að flytja lag eftir hana í Norræna húsinu á sunnudag. Sjálf kemst hún ekki á tónleikana því hún verður í Herjólfi. Ég ætla kannski að reyna að fara ef ég man eftir þeim fyrir flutningum og heimilislegum.

Freigátan minnkar um eina nefkirtla og vonandi talsvert horflæði á fimmtudag í næstu viku.

Og svo langar mig líka ógurlega að endurskipuleggja allar hillur og alla skápa í íbúðinni. Áður en við förum í burtu í tvo mánuði. Mér finnst það alveg rökrétt. Það ruslar enginn til í allt sumar, svo það borgar sig að laga til áður. Þá verður mjöööög lengi fínt.

En eitthvað þarf nú samt að nýta tímann vel, ég er að fara í Þjóðleikhúskjallarann annað kvöld, öll fjölskyldan stormar á vorhátíð í skóla Smábátsins á laugardaginn og á laugardaxkvöldið held ég að Rannsóknarskip fái huxanlega útfararleyfi, ef hann lofar að drekka sig ekki jafnfatlaðan og síðast.

En, með aðstoð ofurforritsins sem Tóró benti mér á er ég þó búin að gera tölvu Rannsóknarskips miklu velvirkari, auk þess sem ég henti heilum haug af úreltum forritum einhverju drasli sem enginn hefur notað síðan 2005. Svo rístartaði ég og krossaði putta að ég hefði ekki hent stýrikerfinu, eins og Svandís gerði um árið. 
Það slapp til.


2 ummæli:

Svandís sagði...

Ha ha ha ha, ég var búin að gleyma þessu með stýrikerfið. Hvernig er hægt að vera svona mikill bjáni.

Hvaða voða sniðuga forrit er þetta annars sem téður Tóró sagði þér frá?

Sigga Lára sagði...

Það heitir System mechanic og er hér: http://www.iolo.com/sm/7/std/default.aspx