11.5.08

Djísuss og dásemdir

Hvítasunnuhelgin verður sú rólegasta á þessum bæ. Reyndar var tekið svolítið til hendinni í gær, Rannsóknarskip sendur í ferðalag, í Sorpu, og skítahaugarnir spúlaðir af svölunum. Þá þarf ég bara að taka utanaf gamla vagninum og þvo það, þá nenni ég kannski að fara að láta Hraðbátinn sofa þar af einhverju viti. Þ.e.a.s. þegar honum verður batnað af horinu. Það sem eftir er helgar er planið að halda sig heima og inni. Báðir litlukrakkarnir eru með hor. Hraðbáturinn gubbaði líka tvöfaldri líkamsþyngd sinni á forstofugólfið áðan og systur hans lá við vitstoli af hryllingi.

Freigátan er annars á þeim aldrinum að hún segir eitthvað fyndið oft á dag. Um daginn sagði ég henni að taka til eftir sig og þá heyrðist: Dísuss Kræst!
Í tón sem gaf unglingnum á heimilinu ekkert eftir. Í dag var ég síðan að hrósa hvítasunnumatseld Rannsóknarskipsins og þá lærði hún orðið "Dásamlegt" og það hefur verið notað um alla hluti síðan.

Annars runnu nú á mig tvær grímur, eða fleiri, þegar ég ætlaði að fara að taka til eftir matseldina. Á miðjum eldhúsbekk, innan um önnur ummerki, stóð nefnilega brúsi af Þrifi. Kannske Rannsóknarskip hafi ekki deilt með mér alveg öllum leyndarmálunum á bakvið dásemdartilÞrif sín í eldhúsinu?

Engin ummæli: