27.5.08

Herra Rólegur

Ég held alltaf að Hraðbáturinn ætli að fara að minnka eitthvað þennan ógurlega svefn sinn og sofa eitthvað undir 18 tímum á sólarhring. En það er nú eitthvað annað. Núna er hann meira að segja búinn að hagræða þannig að hann sefur frá 10 á kvöldin til hálftíu á morgnana, og er steinhættur að vakna um sjöleytið til að drekka. Og áfram fær hann sér tvo til þrjá laaaanga lúra á daginn. Mög þægilegt. Og eins gott. Það er einhvern veginn alveg sama hvað klárast af verkefnum, það er alltaf jafnmikið að gera.

Þessa dagana situr Rannsóknarskip sveittur og fer yfir próf, lengst fram á nætur. Mér skilst að hann eigi að klára herlegheitin í kvöld. Á morgun er fyrirhugað að halda upp á afmæli Smábátsins. Þetta er í fyrsta skipti sem við prófum að gera það að vori, en hann á afmæli á Jónsmessu og hefur hingað til verið haldið upp á það þegar skólinn er byrjaður aftur. En í fyrra var nú bara svo mikið að gera í upphafi skólaárs að það ætlaði aldrei að finnast tími. Svo núna ætlum við að klára það bara af, og kaupa okkur mjög létt frá því og láta Keiluhöllina sjá um dæmið. Sem var að ósk unga næstum-tólf-ára mannsins sjálfs. Enda komast ekki margir tólf-ára-eða-næstum slöttólfar fyrir í íbúðinni okkar, eins og staðan er í dag.

Og ég er að fatta hvers vegna mér finnst ég hafa misst af undanförnum sumrum. Ég er búin að vera ýmist ólétt eða með barn á brjósti öll sumur síðan 2004. Og þá var ég nú eitthvað lítið á landinu. Og svo er að hefjast eitt brjóstagjafasumarið enn... með einni leiklistarhátíð, reyndar... hvernig sem ég fer nú að því að vera án litlu ormanna minna í tæpa viku. Það er talsvert lengri tími en ég hef nokkurn tíma verið aðskilin frá Freigátunni síðan hún fæddist. Jæks.

Og ég er enn að lesa sjálfa mig fram til daxins í dag. Ég er komin að fyrstu flensu haustsins, þegar ég var að hrósa happi yfir að börnin mín yrðu næstum aldrei veik... Múhahaha. Fáviti.

Jæja. Bezt að taka til við allra síðustu þýðinguna í heiminum áður en ég læt endanlega af störfum sem textari!

1 ummæli:

Siggadis sagði...

Vá hvað herrann sefur mikið! Ég er heppin ef ég fæ klukkustund yfir allan daginn! Ekki nema von að ég nái aldrei að gera hreint hér eða lesa staf í bók:-/