28.7.08

Aftur. Og enn aftar.

Er nú ekki alveg alls kostar að nenna að vera í vinnunni. Veit svosem ekki hvað veldur því. Kannski er bara júlí og allt of gott veður úti og litlu krakkarnir mínir of sætir við að stuttbuxast úti um allt. Svo er ég líka búin að vera alveg fantadugleg í sumar. Svo það verður ágætt að leggja þetta alltsaman aðeins til hliðar og taka pásu og fara til Lettlands. Eftir viku! Jihú!

Hin hliðin á því er að um leið lýkur þessari yndislegu sumardvöl hér á stöðum Egilsins. Búhú. En hún er búin að vera illa frábær.

Og eitt og annað þyrfti ég að klára frá í ritstjórninni áður en ég hverf af svæðinu. Aðallega að tala við marga um ýmislegt sem ég veit ekki og kann ekki og segja þeim að gera það. Aðalverkefni morgunsins verður að átta sig á því hvað er eftir og reyna að komast hjá því sem mest að gera það sjálf. Og hringja í einhverja. Ef nennt verður.

Annars er búið að vera að aðlaga Hraðbátinn að fyrirliggjandi fjarvistum Móðurskips. Aðalmálið hefur nottla verið að "venja af" og hefur það gengið svo ljómandi vel að sá stutti drekkur nú úr pela eins og þrautþjálfaður heimalningur svo allt lítur út fyrir að Móðurskip geti bara fengið sér ærlega í tána í útlöndum. Jafnvel bara allan fótinn! (Ætla samt ekki að fá mér í tána eins og Rannsóknarskip gerði á skólanum.)

Við hjónin höfðum líka leikritunarkvöld í gærkvöldi. Sátum sitt með hvora tölvuna við eldhúsborðið og skrufum afmælistengda einþáttunga. Og ég huxa að við gerum bara meira af því og boðum svo nágrannana okkar til samlestrar og gagnrýni áður en við yfirgefum svæðið. Fyrir þessa skrifsessjón fór ég á tónleika inn í Vallanes þar sem Svanur Vilbergs og einhver spanjólskur vinur hans spiluðu. Þeir kunna að spila svaka hratt. (Ég er alltaf alveg að fara að æfa mig...) Þar áður var grillað í húsi forfeðra minna og ég held það sé ennþá sviðalykt af mér. Oj. Og þar áður kom hún Berglind mín í heimsókn með alla fjölskylduna. Ynnndislegt að sjá hana svona í sínu rétta umhverfi, á Austurlandinu. Það eru einmitt búnar að rifjast upp svo margar Berglindartengdar minningar á ráfi mínu um svæðið undanfarna 2 mánuði. Og Svandísar- Rannveigar- Heiðu- og margra annarra. Það er nú eiginlega stórmerkilegt hvað maður heldur enn sambandi við marga sem maður hefur þekkt í einhver 20 ár eða meira...

Og nú er ég komin afturábak aftur á miðjan dag í gær og þaðan aftur í fortíðina og er auðvitað ekki að gera neitt annað en að flýja hið óumflýjanlega verkefni dagsins í dag. Að skipuleggja.
Bezt að hætta því.

Engin ummæli: