24.7.08

Sveitamál

Við tengdafólk mitt ollum álfunum í Álfaborginni við Borgarfjörð hinn Eystri talsverðu ónæði um daginn. Svona þegar ég var búin að benda öllum viðstöddum á hvernig Dyrfjöllin litu út vitlausumegin (og fá alla viðstadda til að samþykkja að vissulega væru þau ljótari þaðan frá séð) fórum við að horfa á bónda sem var að lufsast um í heyinu sínu á túninu fyrir neðan. Ekki vorum við nú aldeilis á einu máli um hvað hann væri að gera. Mér fannst alveg greinilegt að maðurinn væri að "snúa í." En eiginmaður minn og systkini hans voru á einu máli um að hann væri að "snúa."

Í sveitaferðinni í fyrradag rak ég síðan augun í bóndasoninn af næsta bæ við sömu iðju og spurði frændfólk mitt hvað hann væri að gera. (Og þóttist viss um að fá máli mínu stuðning.) Þau komu með þriðju útgáfuna og sögðu manninn vera að tætla. Svo hittum við bóndann af næsta bæ og dóttur hans. Hann sagði drenginn vera að snúa í. Hún sagði hann vera að tætla. Bóndinn sagðist nú ekki par ánægður með það að ef hann segði krökkunum sínum að snúa í, þá færu þau bara að tætla! Svo það er kominn upp ágreiningur á þeim bænum.

En, hvað segja málmeðvitaðir? Ef þeir eru ekki allir úti að heyja?

Snúa?
Snúa í?
Tætla?
Fleira?

9 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Heima hjá mér var talað um að snúa. Hef þó heyrt snúa í og hefði haldið að það væri nú bara í góðu lagi og skemmtilegt afbrigði – þótt mér finnist hitt bæði fallegra og eðlilega, rétt eins og þú snýrð öðrum hlutum. (Þetta ætti kannski bara að vera „djöflast í“? „Bóndinn var úti að djöflast í heyinu“!?) Það var líka talað um að tætla heima hjá mér ... og að mig minnir tæta ... en til þess gerð vél gjarnan kölluð tætla eða heytætla. Orðabókin gefur tætla hins vegar ekki upp sem nafnorð, nema í merkingunni pjatla, rifrild, en hún gúterar vissulega heytætla.

Þess má geta að Google finnur ekki orðasambandið „snúa í heyi“, bara „snúa heyi“ en hvað veit hann svo sem.

Elísabet Katrín sagði...

Ég var úti á túni að snúa í dag :) þegar það var búið að gera við heyþyrluna...eða snúningsvélina ;)
Hafið það gott í sólinni...:)
PS:
Í minni sveit eru bara kartöflugarðarnir tættir á vorin með svokölluðum tætara...ekkert tætlað...bara tæklað í fótboltanum á kvöldin ;)

Nafnlaus sagði...

Í Skriðdal snúa menn í... og nota til þess fjölfætlu.

Nafnlaus sagði...

Út í Hlíð súa menn í og tætla jöfnum höndum. Hinsvegar snúa menn görðum en það var gert ef búið var að raka heyinu saman, oftast að kvöld vegna yfirvofandi rigningar og var þá látið blása í garðana áður en þeir voru bundnir. Já og þar var talað um að binda í bagga en ekki að setja í bagga sem að virðist vera talað um þegar norðar dregur og að minnir hér fyrir sunnan. Jahérna þetta ætti kannski bara heima í Búnaðarfélagsritinu ef að það kemur þá ennþá út á þessum síðustu og verstu tímum:O) Kveðja Sesselja

Nafnlaus sagði...

Á mínum bæ var snúið með fætlunni en dreift úr görðunum!! Ætli það séu til margar útgáfur af þessu?
Eygló D.

Þórunn Gréta sagði...

Snúa í.

Nafnlaus sagði...

skemmtilegt!segir manni að eftirspurn sé eftir útvarpsþáttunum um íslenskt mál sem voru einhvern tíma á dagskrá rásar eitt... Á mínum bæ (sem er ekki svo fjarri Brekku hans Árna) var talað um að snúa með heyþyrlu eða heytætlu. Aldrei heyrt þetta að snúa í. Lærdómsríkt!

Nafnlaus sagði...

Snúa í og HALLÓ HALLÓ HALLÓ Dyrfjöllin eru varla Dyrfjöll nema frá Borgarfirði séð!

Nafnlaus sagði...

Ef maður er aftan við Dyrfjöll, þá er maður samt ekki að Hurðabaki. Það er einhversstaðar annarsstaðar á landinu. Skrýtið.