6.7.08

Sumarhundur

Er í vinnunni, "eldsnemma" á sunnudagsmorgni. Og er að kóróna vanhelgunina á hvíldardeginum með því að hringja í annað fólk! Reyndar hefur enginn svara mér ennþá, svo kannski tekst það bara ekki. En ég er þó allavega með messuna í útvarpinu.

Drottinn sé með yður.

Í gær var brjáluð blíða og ég tók fullt af myndum. Svona ef þetta skyldi vera eini góðviðrisdagurinn í sumar, þá þurfum við ekki að muna neitt annað.

Annars þarf ég að fara að passa geðið í mér núna. Smábátur hafði orð á því að honum þætti sem við værum komin aftur til Frakklands. Og þá áttaði ég mig á því að ég hef tilhneigingu til þess að flytja með fjölskylduna á sumrin og dvelja langdvölum einhversstaðar, hérlendis eða erlendis, við frekar frumstæðar aðstæður.

Með fimm manna fjölskyldu í þrengslum og uppþvottavélarleysi er auðvelt að týna sér í húsverkunum. Nú er ég farin að vera þannig að ég næ ekki upp í hárið á mér yfir öllu sem mér finnst ég alltaf þurfa að vera að gera til þess að allir séu hreinir, étnir og sæmilega í fötum. Og get hreint ekkert notið hvíldarstundanna á milli vegna þess að ég er alltaf farin að hugsa um næsta verk, matartíma, pissubleyju, eða eitthvað. Og þegar ég á pásu get ég alls ekki farið að gera eitthvað skemmtilegt, því ég þarf svo mikið að hvíla mig.

Þetta gengur alls ekki lengur. Nú ætla ég með liðið út að borða í hádeginu þar sem Smábáturinn yfirgefur okkur á eftir. Svo ætla ég að láta allt draslið liggja þar sem því sýnist og leika mér við litlu krakkana það sem eftir er í dag. Og reyna svo að gera allavega eitt skemmtilegt á dag það sem eftir er sumarfrís.

Og með mínum anda. 
Amen.

Engin ummæli: