28.8.08

Skipulaxdagar!


Nú nældu litlu krakkarnir sér í eitthvað smá hor (bara pínu, engar drepsóttir eins og í fyrra) svo í dag er annar dagur í inniveru hjá okkur. Og það gæti haft geigvænlegar afleiðingar í för með sér. Í gær fór ég nefnilega að skipuleggja heimilið. Huxaði mig í einn hring og var búin að eyða gríðarlegum fjármunum í Góða hirðinum/Rúmfatalagernum/Ikea, í huganum. Huxaði svo annan hring og sá þá að besta leiðin til að redda sér plássi væri líklega að henda dóti og nota svo draslið úr geymslunni til að redda sér í skipulaginu.

Svo gestarúmið fór í Góða hirðinn í gær. En gestir, örvæntið eigi, ég á samanleggjanlegt gestarúm niðri í geymslu sem verður notað fyrir einn. Ef svo koma hjónafólk eða þanneigin verður fjárfest í uppblásanlegu gestarúmi, sem einnig getur geymst í geymslunni á milli gesta.

Allt dótið Freigátunnar og Hraðbársins er annars bara flutt í plássið sem gestarúmið tók. Svo hættan á að fljúga á hausinn um dúkkuvagna og smábarnadót hérna í stofu-eldhúsinu hefur snarminnkað.

Og í anda þeirrar uppgötvunar að hendingar séu besta leiðin til að fá meira pláss ætla ég að rífa bekkinn úr þvottahúsinu... í staðinn fyrir að nenna að endurinnrétta það. Annars ætla ég nú bara að bjóða út verkið í þvottahús-baðherbergið mitt. Einhvern tíma þegar ég verð orðin rík.

2 ummæli:

Elísabet Katrín sagði...

Heppin ég að hafa náð að sofa í gestarúminu áður en það fór í Góða hirðirinn ;)

Sigga Lára sagði...

Það náðu því reyndar alveg ótrúlega margir. Miðað við hvað það var gestarúm í stuttan tíma. Allir fastagestirnir, held ég bara.

En nú er líklega óvenjulangt í næstu gestakomu, svo ég held að bylting hafi alveg verið vel tímasett.