24.9.08

Gert útaf...

Eftir einstaklega geðvondan innidag í dag var haldið utan í dag, hvernig sem viðraði. Enda viðraði ýmislega.

Úthaldið var gert í hálfgerðri súld og fyrsti viðkomustaður var splunkunýr róló sem verið er að gera í grenndinni. Svo vel bar í veiði að sandurinn var kominn í sandkassann. Þó svo nýkominn að það var ekki einu sinni búið að moka neitt í honum. Svo börnin vígðu hann í um klukkutíma og voru eftir það söndug uppfyrir haus bæði tvö.

Eftir smá dust var haldið í strætó. En þar sofnaði Hraðbáturinn sem fastast. Leiðin lá upp í Laugardal í gegnum hvern var gengið rösklega alla leið upp á hið nýja Bandalag, hvar Móðurskip endurnýjaði kynnin við annað fullorðið fólk og fékk sér nokkur niðurdrepandi leikrit fyrir harmleikjakúrsinn. 

Í bakaleiðinni var dundað lengi í Laugardalnum. Meira að segja lengilengi. Freigátan fékk að fara sínu fram og taka alla útúrkróka sem hana langaði til, var enda mestallan tímann fyrir eigin vélarafli. Þegar farið var að glitta í strætóstoppistöðina voru þó fæturnir hennar litlu farnir að verða nokkuð þreyttir og Hraðbátur, þá nývaknaður, líka orðinn þreyttur á langsetum í vagninum, svo skipt var um hlutverk. Freigátan var flysjuð af útifötum og fékk að leggja sig í vagninum en Hraðbátur fékk pollabuxur og hásætið ofan á honum og öskraði af hamingju.

Það var einstaklega þreytt, margt smátt fólk sem skreið heim á Ránargötu um hálftvöleytið. Og nú eru þau alveg harðsofnuð. Og ekki er nú allt fjörið búið í dag. Við Freigáta erum að fara á sundnámskeið klukkan hálfsjö.

Á morgun er síðan ætlunin að Móðurskip fái Freigátufrí. Þ.e.a.s., Rannsóknarskip kemur heim um tíuleytið svo við Hraðbátur getum farið vagnandi í mömmujóga, þaðan förum við viðstöðulaust í mat með mömmujógakonum á Maður lifandi og örkum þá sem leið liggur út á Hrafnistu þar sem við ungabarnasundum. Verðum sumsé að heiman allan daginn. Eins og ég var búin að gera ráð fyrir að hafa alla fimmtudaga í september og október, mér til geðheilsubótar. 

Í gær hékk geðheilsan nefnilega á síðasta bláþræðinu þegar Rannsóknarskip kom heim út vinnunni, og Móðurskip tók frekjukast og heimtaði að fá að hafa einn útifimmtudag svo meiri líkur væru á því að við mæðgur gengjum báðar heilar til skógar frá helginni. Þá verð ég nefnilega aleinstæð í 48 klukkustundir þar sem Rannsóknarskip og Smábátur ætla að breggða sér norður.

Ef ekki rætist síðan úr leikskólamálum í næstu viku hringi ég sjálf á barnaverndarnefnd.

3 ummæli:

Berglind Rós sagði...

Mmmm mig langar í mömmujóga og á Maður lifandi! En það er líka gott að setja börnin í leikskóla og fara í vinnuna ;-)

Siggadis sagði...

Hvernig hljómar að setja börnin á leikskóla/til dagmömmu og svo fara í spa? Eða manicure...? Ohhh... ég þrái svoleiðis dag...

Sigga Lára sagði...

Mmmmm. Vinnunaaaaaa!