28.9.08

Makkapakka

Í barnauppeldi er maður sífellt að gera sér betur grein fyrir fávisku sinni. Eitt af því sem ég hef krónískt rangt fyrir mér um er barnaefni. Fyrirfram hafði ég til dæmis enga trú á að nokkuð barn gæti haft gaman af Stubbunum. En þeir eru nú aldeilis búnir að stytta stundirnar á þessu heimili. Þessi eini diskur sem er orðinn ónýtur af ofspilun. Einhvern tíma í fyrravetur sáum við Rannsóknarskip síðan nýtt barnaefni sem hneyxlaði okkur mjög.

Þættirnir heita "Í næturgarði" og eru fyrstir í lænöppinu á Rúv á sunnudaxmorgnum. Persónurnar heita allar eitthvað svona "Iggúl Piggúl" og "Makka Pakka" og "Obbsí Deisí", lestin heitir "Mínkí Monk" og flugskipið "Pínkí Ponk." Söguþræðirnir eru ofureinfaldir og hver persóna á sitt lag eða sína vísu sem sögumaður fer með eða syngur þegar þær koma fyrst í hverjum þætti.
Öööömurlegt. Sögðum við hjónin í kór. Ljóta vítleysan og gerir börnin nú bara að algjörum VanVitum.
Þangað til í ljós kom að Freigátan (sem annars situr aldrei kjur yfir nokkru, þó hún heimti oft stanslitlar kvikmyndasýningar) sat yfir þessu eins og dáleidd. Og Hraðbátur gerir það líka, nú þegar, en hann er nú líka efnilegri glápari. 
Þannig að nú syngur fjölskyldan stundum einum rómi og af innlifun sönginn um Iggúl Piggúl og Freigátan má alveg kunna orðskrípi eins og "Pontípænar" og "Tomlíbúar." Friðurinn á milli átta og hálfníu á sunnudaxmorgnum er fullkomlega þess virði.

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Gunnari Jónssyni finnst þessi þáttur aldeilis mögnuð skemmtun, og hann er enginn asni- lærði að segja babú í kvöld.

Kveðja, Jón Gunnar

Varríus sagði...

Rifjast þá líka upp fyrsta tilraun Freigátunnar til leikritunar með "baddígæ" og "búddígæ" og þeim öllum.

Áhrifavaldarnir augljósir.

Nafnlaus sagði...

Ég elska næturgarðinn !!! Heiða elskaði þessa þætti (nennir þeim reyndar ekki lengur) og Þór líka.

Ég bið til stubbanna á hverju kvöldi og þakka þeim fyrir geðheilsuna sem hangir á bláþræði en væri löngu farin ef ekki nyti þeirra við.

Núna eru það reyndar Lína Langsokkur og snilldin eina, Peppa Pig, sem hafa mesta aðdráttaraflið.

Kv. Svandís

Sigga Lára sagði...

Já, hún Peppa pig, sem heitir Gulla grís, er líka vinsæl. Ásamt með Línu, Kalla á þakinu og nýkeyptur diskur með brúðubílnum var að koma í hús og ætlar að bjarga geðheilsunni þessa síðustu viku fyrir leikskóla.

Og áhrifavaldar? Núna snúast líka margir leikir um að fara í heimsókn til Snorkfinns. Ég hef grun um að Múmínálfarnir komi þar eitthvað við sögu.

Varríus sagði...

Jibbí!

Múmínálfarnir eru eins og spínat og slátur við hliðina á kókópuffsi stubbanna og þeirra allra!

Segir gamli íhaldsköggullinn.

Nafnlaus sagði...

Já, múmínálfarnir eru mjög vinsælir hérna og um langt skeið teiknaði Heiða ekki myndir af neinu öðru en Morranum.

Múmínálfarnir eru æði.

Kv.
Svandís