1.10.08

Stóru strákarnir fóru í bíó í gær

Það ku hafa verið skemmtan hin besta. Í myndinni sást Rannsóknarskip segja Baltasari Kormáki að halda kjafti. Aukinheldur sást skóli Smábáts, hinn verðandi leikskóli Freigátunnar, húsið okkar og, að þeim sýndist, bíllinn okkar. Mælum semsagt með Reykjavík Rotterdam.

Höfum annars ekki haft okkur út í norðangarrann í morgun en þurfum líklega að herða okkur upp í það seinnipartinn þar sem allt er að verða búið úr kotinu. Helst til tíðinda af morgninum var það að Freigátan lærði að brjóta saman peysur og þótti það svo skemmtilegt að hún þurfti að fá að brjóta saman allar peysur í húsinu. Vildi til að flestar þurftu þess með. Svo var líka dótaherbergið tekið eitthvað til rannsóknar, slátur étið í hádeginu og nú eru allir sofnaðir svo Móðurskipið þarf að setjast yfir hina æsispennandi Fedru Racines.

Hið sama Móðurskip hefur annars verið nokkuð geðbólgulítið í dag. Gott að vera komin með dagsetningu til að stefna að, þó heldur sé hún nú seint fyrir smekk vorn. Freigátan hefur sumsé aðlögun á Drafnarborg föstudaginn 10. október. (Sem er líka alþjóðlegi geðheilbrigðisdagurinn og trúlofunarafmæli foreldra hennar. Viðeigandi.) En Rannsóknarskip skrópar í vinnuna á morgun til að við Hraðbátur komumst í mömmujóga-ungbarnasun maraþonið, og gerir slíkt hið sama á fimmtudag í næstu viku svo ég skal nú ekki grenja neitt í dag.


Myndskreytingar eru af fyrstu tilraun Hraðbáts til stafsetningar og nýjustu brostegund Freigátunnar.

Engin ummæli: