5.11.08

Plebbar á Holtinu!

Nú hrynja vígin hvurt af öðru. Bankarnir dottnir í ríkið, ríkið dottið á hliðina. Og þjóðin með. Ja, ríkukallarnir virðast reyndar ennþá eiga péninga til að kaupa fjölmiðla og svona, en láta lítið fara fyrir sér.  Og í kvöld hrundi enn eitt vígi ríkukallanna. Það komu venjulegir alþýðuplebbar á Hótel Holt! Og það á miðvikudagskvöldi! Ef menn hlustuðu vel mátti heyra alla púka Mammons emja og væla yfir vanhelguninni.

Þetta gerðum við hjónin nú samt, af skömmum okkar. Reyndar var þetta ekki svona skyndihugdetta, eins og ríkukallarnir fá örugglega stundum þegar þeim dettur í hug, á miðvikudaxkvöldi, að skreppa og éta á Holtinu. Í júlí gerðist það nefnilega að bankinn minn... fyrrverandi... sem sagt... sjálfstæði ekki-ríkisbankinn sem hann er núna heldur auðsjúgandi svikamillan sem hann var, að leggja niður kreditkortið mitt. Nýju var troðið upp á mig ásamt allskonar dóti. Eitt af því var ávísun á fjórréttað á Holtinu fyrir tvo fyrir tíufúsundkall. Gilti til 1. des. Þegar var ákveðið að fara á 36 ára afmæli Rannsóknarskips sem er einmitt í dag. Pössun var naglfest í ágúst. Svo skemmtilega vill nefnilega til að foreldrar mínir eru í löngu skipulögðu stoppi á leið sinni til Víetnam og Kambódíu. Fjörutíu ára brúðkaupsafmælisferð.

Sem sagt, við fórum á Holtið í kvöld. Hvað sem tautaði og raulaði. Og hóstaði. Þar var nú aldeilis tómt. Þegar við komum voru tvær eldri og heldri dömur að borða. Hvort í sínu lagi. Okkur þóttu þær nú forvitnilegar. Ég ætla að skrifa tvö samhliða eintöl uppí þær. Svo fóru þær. Hvor í sínu lagi. Þegar við vorum að klára (annars frrrábæra máltíð með íkveiktri belju og allskyns) undu sér inn tveir jakkafatakallar. Ætluðu bara að droppa inn. Með níu manna hóp. Alveg örugglega glæpamenn og útrásarvíkingar með hlaðin gullkort af stolnum peningum og afskrifuðum lánum. (Eða löggiltir endurskoðendur. Mér skilst að þeir séu nýju ríkukallarnir og græða stórfé á að fela peningana sem gömlu ríkukallarnir náðu ekki að koma til útlanda.)

Við plebbar átum svo vel og rækilega að sennilega þurfum við ekki að næra okkur aftur fyrr en eftir kreppu. Og skömmuðumst okkar ekki baun við að vanhelga hin helgu vé Yfirstéttar með nærveru vorri, ódýrum fötum og miklu betri mannasiðum en ríkir plebbar sýna nokkurntíma. Svo fórum við í Skífuna og versluðum nokkra vel valda geisladiska á fúsundkall hvern. Ég verslaði sándtrakkið af Cabaret bara til að eiga lagið Money (makes the world go around.) Um daginn var ég nefnilega að labba kreppta Laugaveginn og þá komu í röð, Money með Pink Floyd og Money, Money, Money með Abba. Ég er að huxa um að búa til peningaplaylista í ípottinn minn. Í minningu Góðæris heitins.

Engin ummæli: