27.1.09

Ár uxans

hófst í gær samkvæmt kínversku tímatali. Enda hættu menn alveg að smjúga milli þilja í Alþingishúsinu, að hætti rottanna, og fóru að ryðjast um og trampa fast hver á annars tám. En alveg er mér sama hvað formenn fyrrverandi stjórnarflokka segja um hver gerði hvað í stjórnarslitum. Ef menn væru nú soldið klárari þá myndu menn benda á háværar og margar raddir úti í þjóðfélaginu... í staðinn má ekki minnast á mótmælin. Guð forði að "skríllinn" fari nú að fá einhverjar ranghugmyndir um að hann sé þjóðin.

Í fyrsta skipti síðan ég fékk kostningarétt er Sjálfstæðisflokkurinn ekki í ríkisstjórn. Í ein tíu ár erum við búin að horfa á hugmyndafræði frjálshyggju blása sápukúlur sem springa jafnóðum í andlitin á okkur öllum (sérstaklega þeim sem síst skyldi og ekkert græddu í millinu) en aldrei sem undanfarna mánuði.
En nú heyri ég af fólki sem finnst nú fyrst ástæða til að hóta að flýja land.
Vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn er ekki lengur í ríkisstjórn!

Landamærin eru opin, gjöriðisvovel.

Ég veit ekki með minnihlutastjórn vinstri flokka. Mér heyrast allir pólitíkusar komnir í bullandi kosningabaráttu. Hefur kannski bæði sína kosti og galla. Helst vildi ég nú samt sjá fólk í ráðuneytunum sem er ekki að hugsa um pólitík og skammtímavinsældir heldur einungis verkefnin sem fyrir liggja.

Og svo þarf að kjósa til stjórnlagaþings samhliða almennum kosningum í vor. Það er ófrávíkjanleg krafa. Annars þarf bara að fara aftur út að berja.

Hraðbátur hefur annars ekki frétt af (næstum) fullnaðarsigri byltingarinnar. Í gærkvöldi náði hann sér í pott inn í pottaskáp, í fyrsta skipti, og fór að berja. Með því hrópaði hann "Va-va-va-va". Hann ætlar að verða búinn að læra orðin "vanhæf ríkisstjórn" næst þegar þarf að hrópa niður stjórnvöld.

Engin ummæli: