25.1.09

"Auðvitað"-aðferðin og aðrar blekkingar orðræðunnar

Einu sinni var ég mikill aðdáandi Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur. Mér fannst hún satt að segja vonarstjarna í mykjuhaug stjórnmála á Íslandi þegar auðvaldskjaftæðið og græðgisvæðingin undir merkjum góðæris var að byrja að gleypa allt og alla. Núna getur hún ekki hætt að pirra mig.

En ég held ég sé búin að fatta af hverju mér fannst hún svona klár. Hún notar "Auðvitað"- aðferðina. Hún er enn að því.

"Auðvitað"-aðferðin felst í því að byrja allar setningar, sérstaklega þegar maður vill sannfæra fólk um eitthvað fráleitt, á orðum eins og: "Auðvitað er ÖLLUM ljóst..." eða "Það SÉR það náttúrulega HVER MAÐUR að..." Og svo framvegis.

Þessi framsetning gerir það að verkum að áheyranda finnst honum eiga að hafa verið framhald setningarinnar eigi að hafa verið honum ljóst, ellegar sé hann einstaklega mikill fáviti. Framhald setningarinnar er síðan oftast, sé talandi stjórnmálamaður, eitthvað fljótandi og loðið sem segir manni ekki neitt. En hljómar líklega. Svo maður getur látið sem manni hafi einmitt verið það alveg ofboðslega ljóst.

Formenn stjórnarflokkanna beita fyrir sig einni orðbykkju þessa dagana. Landið má ekki verða stjórnlaust. STJÓRNLAUST. Gefið er í skyn að hætti ríkisstjórnin ríki hér "stjórnleysi." Menn sjá fyrir sér ástand í líkingu við borgarastyrjöld. Enginn stjórnar neinu. Bardagar á götuhornum og rafmagnslaust. Landið er hins vegar ekki "stjórnlaust" þó hér sé ekki ríkisstjórn í nokkra daga. Alþingi starfar. Fólk sem vinnur í ráðuneytum mætir í vinnuna. Þetta gerist til dæmis ævinlega í einhverja daga eftir kosningar. Um leið og búið er að mynda ríkisstjórn fara menn síðan venjulega í laaaaaaaangt sumarfrí.
Ríkisstjórnarleysi er ekki það sama og stjórnleysi.

Einnig er orðinu stjórnarKREPPA haldið mjög á lofti. Meiri kreppa. Önnur kreppa ofan á kreppuna sem veldur því að nú missa allir vinnuna og enginn á pening og verðbólga hækkar allar vörur. StjórnarKREPPA. Ofan á allt annað!
Síðan ríkisstjórnin tók að riða til falls hefur krónan styrkst. Hér er kreppa. Og hún verður löng og erfið. En það skyldi þó aldrei vera að aðrar þjóðir væru frekar til í að hjálpa þjóð sem ekki situr enn undir ríkisstjórninni sem öllu kom í kaldakol?

StjórnarKREPPA er það ástand sem skapast þegar engir tveir flokkar geta komið sér saman um að mynda ríkisstjórn. Sem getur bara vel verið að gerist. En þá kemur í ljós hversu vel forsetinn er nýtilegur til heimabrúx eða hvort hann er algjör fjaðraskúfur.
Ég vona að hann sé búinn að vera að dunda sér við, í felunum, að raða saman utanþingsstjórn klárustu mannanna í þjóðfélaginu á hverju sviði. Hljómar eins og skemmtilegt verkefni.

Persónulega langar mig að setja Vigdísi Finnboga í menntamálaráðuneytið. (Ég veit alveg að hún er ellldgömul, en þetta eru nú ekki margir mánuðir.) Páll Skúlason væri hreint ekki vítlaus forsætisráðherra. Einhverja af þessum himinkláru hagfræðingum sem hafa skrifað gáfulega undanfarið (og ég man aldrei hvað heita) í viðskipta- og fjármálaráðuneytið. (Sama hvað ég reyni, ég get ekki haft áhuga á peningamálunum. Ég gleymi öllu svoleiðis um leið og ég heyri það, en margt af því hljómar alveg gáfulega á meðan.)
Geir Jón í dómsmála... Fá Jóhönnu til að hætta á þingi og halda áfram sem félagsmála... Ólaf eldgamlajálk fyrrverandi landlækni í heilbrigðis...

og svo man ég ekki fleiri ráðuneyti og á eftir að þýða einhvern treiler fyrir morgundaginn.

2 ummæli:

Gummi Erlings sagði...

Jamm, einhvern veginn svona:

Forsætisr.: Páll Skúlason
Fjármálaráðh.: Þorvaldur Gylfa (nema hann fari í seðlabankann)
Viðskiptar.: Vilhjálmur Bjarnason (nema hann fari í fjármálaeftirlitið)
Menntamálar.: Vigdís/Njörður?
Félagsmálaráðh.: Jóhanna Sigurðar kannski?
Heilbrigðismálar.: Siggi Pönkhjúkka :)
Dóms- og kirkjumálaráðh.: Hilmar Örn Hilmarsson

Nafnlaus sagði...

Guðmund Ólafsson í Seðlabankann. Siggi Pönk fæst aldrei í ríkisstjórn en ég vil fá Katrínu Fjeldsted í heilbrigðisráðuneytið. Gera Geir Jón frekar að ríkislögreglustjóra en Dómsmálaráðherra, vil ekki sjá að fá trúaðan mann í Kirkjumálin. Ólaf bónda á Þorvaldseyri undir Eyjafjöllum sem Landbúnaðarráðherra.

Stefna svo að því að leggja þennan ónýta valdapýramída niður á einu kjörtímabili og taka upp stjórnvaldsleysi (sem merkir ekki stjórnleysi)