15.3.09

Á Egilsstöðum

Mikið hrrrryllilega höfum við það nú gott. Alla jafna er frekar slæmt að afar og ömmur skuli vera svona óheppilega fjarri. Á móti kemur að þá sjaldan við hittum þau tökum við allt dekrið út í einu svakalegu óverdósi. Bara í dag hef ég fengið að leggja mig aftur um morguninn, fara út að labba og bara alla jafna hugsa um í mesta lagi eitt barn í einu.

Svo fór ég líka í kaupfélagið. (Sem heitir það alltaf, sama hversu mikið það fer á hausinn.) Ég nenni næstum aldrei að kaupa mér föt nema þegar ég kem hingað. Og í dag fékk ég að fara aaaalein í búð og verslaði mér alklæðnað á níuþúsundkall. Og verslaði ekki eina lufsu á börnin.
Svo erum við auðvitað búin að borða okkur til óbóta og fengum læri í hádeginu.
Á morgun fæ ég að brúka jógatíma móður minnar meðan hún passar börnin.

Freigátan fékk að fara út hvenær sem hún vildi í dag, skóflaði snjó, byggði snjókerlingar, hitti hundvinkonu sína síðan síðasta sumar, tvær langömmur... var enda sofnuð fyrir klukkan sex og ekki séns að vekja hana í kvöldmatinn. Hraðbátur kom lasinn austur en er allur að jafna sig og stefnir í að verða hitalaus á morgun. Heyrði í feðgunum sem urðu eftir í höfuðborginni, áðan. Þar ráða menn sér ekki fyrir tilhlökkun en eru ekki byrjaðir að pakka. Þeir fljúga til Manchester á morgun og stefna síðan á vit ævintýranna í borg Bítlanna.

Djull svakalega erum við öll að hafa það fínt í sjálftekna vorfríinu.
Munur að geta hagað sér svona! Er enn ákveðnari en áður í að gera aldrei neitt "af viti" eins og til dæmis að fá mér "almennilega vinnu" í lífinu. Þetta er svo alvarlega gaman.

2 ummæli:

Spunkhildur sagði...

Húsmæðraorlof er dauðans alvara. Allir ættu að fá eitt slíkt á ári...

Nafnlaus sagði...

Öfund... Var einmitt að svindlast á bloggið þitt í próflestrinum og fantasíur um Egilsstaðadekur eru ekki próflestrarvænar:(
Kveðja Jódís