4.8.09

2007 / 2009

Allt hefur hækkað. Nema laun og námslán. Þau standa í stað eða lækka. Allir eru að verða atvinnulausir, 3 fyrirtæki fara á hausinn á dag ríki og bæir djöflast í að skera niður, á vitlausum stöðum, auðvitað, og halda uppi ónýtum fyrirtækjabáknum sem einhverra hluta vegna mega ekki fara á hausinn. Allt stefnir í eilífan forarpytt erlendra skulda sem við komumst aldrei aldrei aldrei uppúr. Og krónan sekkur til botns og hver einasti hlutur innfluttur kostar handlegg og fótlegg. Persónulega hjá mér? Lánin hafa hækkað, launin hafa lækkað og íbúðin okkar stendur líklega engan veginn undir veðinu.

En fólk hefur skoðanir. Þær eru margar og misjafnar, en menn hamast við að lesa og skrifa. Tjá sig. Benda á lausnir, skamma þá sem eiga sök. Vilja ganga í EB eða ekki, samþykkja Icesave, eða ekki. Menn hrekja gömlu valdabröltarana aftur inn í skápana með sín lögbönn á fjölmiðla og gera stjórnarbyltingar með búsáhöldum. Fara í framboð, skipuleggja aðgerðir, skrifa reiðar greinar. Mæta á mótmæli.

Þegar almenningur er sammála stjórnar hann þjóðfélaginu.

Ég elska Ísland 2009.
Í græðgisgeðveikinni 2007 hefði ég getað hugsað mér að flytja til Noregs.

Engin ummæli: