22.12.09

Takk fyrir ábendingarnar!

Síðasta fyrirspurn bar gríðarlegan árangur, tillögur hrönnuðust inn á facebook og eftir ýmsum leiðum. Þessi rannsókn verður nú auðleyst ef ég get brúkað samfélagið svona, til leiðbeiningar þegar mér sýnist.

Upp er annars runninn síðasti dagurinn í vinnunni. Ég hef grun um að við Palli Skúla séum ein á háskólasvæðinu í dag. Ég ætla að klára drögin að þessum kafla sem ég ætla að smíða í janúar, senda leiðbeinanda, og kalla það svo gott fyrir jól.

Ekki þarfyrir að jólin eru alveg komin heima hjá mér. Eftir að pakka inn nokkrum gjöfum og kaupa í matinn. Litlu ormarnir eru á leikskóla í dag en fá frí frá og með morgundeginum til 8. jan. Þá ætlum við loksins að lufsast aftur að austan.

En hlaupaveðrið hefur víst yfirgefið austfirðinga, svo ekki er víst að maður taki neina hringi á íþróttavellinum í þessu stoppi. Í staðinn ætla ég að vera ferlega dugleg og fara út á eftir, helst líka á morgun og alla jóladagana. Stefni á að missa svona 2 kíló um jólin. Ég er ekki klikkuð. Þetta er svolítið útpælt. Einu sinni fór ég nefnilega út að hlaupa fljótlega eftir morgunverð með amerískum pönnukökum, beikoni, sírópi og öllu tilheyrandi. Skemmst frá því að segja að ég hef sjaldan átt jafnlétt með að hlaupa 10 kílómetra. Gjörsamlega full af orku.
Svo planið er að vera dugleg að nota hitaeiningarnar um jólin.

Fyrir austan má síðan reikna með að það þurfi talsvert að leika við ormana úti í snjónum. Þau eru alla jafna mjög dugleg að leika sér úti, en þegar á Austurlandið kemur keyrir yfirleitt virkilega um þverbak. Þar eru hundar og kettir á hverju strái, ömmuróló, Steinaróló, leikskólaróló, já, og svo bara að þvælast út um allt að leita að fleiri hundum, köttum og rólóum.

Það er sem sagt ekki stefnt á nein sérstök rólegheit um jólin. Enda, nóg gert af því að sitja á rassinum á þessu ári.

Jæjah, best að kláretta!

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þið palli voruð ekki ein, ég var þar líka :Þ

Svandís