14.4.10

Endurmat

Mér finnst alltaf jafnfyndið að fara allar krókaleiðirnar sem þarf til að komast inn í heimabankann minn, póst-hrun. Notendanafn og lykilorð, þá á að brúka eitthvað auðkennisdæmi sem ég setti óvart í þvottavélina fyrir mörgum árum og þarf þess vegna að fá sent í símann... kostar 6 krónur ... hvað ætli bankar og símafyrirtæki hali mikið inn á þessu á dag?

Allavega, það sem mér finnst fyndið við þetta alltsaman er að nú er komið í ljós að bankarnir voru rændir innanfrá. Og á meðan bankaleynd og skilanefndir sitja á þeim, og við fáum ekki að vita hverjir eiga þá, er líklega ennþá verið að því. Líklega endar með því að fólk fer bara að geyma peningana heima hjá sér. Fasteigna"markaðurinn" er heldur ekki "í frosti". Það er bara ekki skortur á húsnæði. Enginn er að fara að borga tugmilljónir sem hann á ekki til fyrir eitthvað sem miklu meira en nóg er til af. Fasteigna"markaðurinn" er ekki frosinn. Hann er farinn. Sem og íslensku "fjármálamarkaður" eins og hann leggur sig. Og farið hefur fé betra. (Pun intended.)

Margir eru orðnir óþreyjufullir og kalla á einhverskonar "enduruppbyggingu". Ég held að það sé ekkert "endur" í því. Hér þurfa að verða jarðvegsskipti og svo þarf að hefja hér í fyrsta sinn uppbyggingu. Hún er reyndar hafin á fullu. Það er bara lítið horft til þess þar sem enginn einn er að skapa fjögurþúsund vellaunuð skítadjobb. En það er ýmislegt að gerast í atvinnulífinu. Menn eru byrjaðir að fikta sig áfram með að fullvinna matvöru. Það hefur orðið sannkölluð nýsköpunarsprengja. Hönnunarverkefni. Allt brjálað í ferðamennsku og menn hafa loksins tíma til að láta sér detta eitthvað sniðugt í hug til að sýna túristum. Og þar kemur líka hönnun aftur við sögu.

Vandamálið sem margir virðast sjá er að það er ekkert EITT STÓRT að redda ÖLLU. Lesist: Það er ekkert eitt stórt ógeðsver þar sem gullrassar og arðræningjar geta safnað til sín haug af fólki og látið það þræla fyrir sig á skítalaunum á meðan þeir sjálfir maka krókinn.
En só wott?

Atvinnuleysi er vandamál. En ef það væri nú bara farið í að manna, t.d., heilbrigðis og menntakerfi almennilega, í fyrsta sinn í sögu lýðveldisins, væri það ekki lengur vandamál. Hvað með það þó við þurfum að vera aðeins lengur að borga niður síðustu sukkgeðveiki? Er slæmt að við þurfum að muna það lengur en þrjú ár? "Fjármálamarkaðurinn" er farinn. Dauður. Kemur aldrei aftur. Góðærisfábjánarnir verða bara að fara með þýfið í spilavíti erlendis.

Atvinnuleysi er líka viðhorfsvandamál. Atvinnuleysi og iðjuleysi þarf alls ekki að vera eitt og hið sama. En það hjálpar ekki til að sjálfsmynd hins almenna Íslendings (og Vesturlandabúa, reyndar) hangir gríðarlega mikið á því að honum hlotnist sá heiður að vera launaþræll hjá arðræningja. Þeir sem fást við aðra (og næstum alltaf merkilegri) hluti hafa aðra og ómerkilegri stöðu í samfélaginu. Þetta viðhorf auðveldar mönnum vissulega verkið, þegar þeir ætla að ryksuga allt fémætt úr þjóðfélaginu.

Mér líður ágætlega eftir þessa skýrslu. Er reyndar enn með smá ælubragð eftir PR-stönt morgunsins frá Björgólfi T Hor... ferlega vona ég að allir þessir bjánar séu í útlöndum.

Sumir hafa talað um að kosningar hafi verið of snemma. Þær ættu að vera núna. Ég fór að ímynda mér hvernig ástandið hérna væri núna ef Geir og Solla og co. væru enn í ríkisstjórn. Ég hef á tilfinningunni að menn væru ekkert að fara að segja af sér núna heldur. Og það væri ekkert bara verið að tromma og henda einu og einu eggi í rólegheitunum niðri á Austurvelli. Ef byltingin væri núna væri þegar orðið mannfall. Svo líklegra er heppilegra, svona uppá ofbeldið, að flest af þessu fólki sé að mestu horfið af sjónarsviðinu.

George Simmel er þýskur spekingur sem setti fram áhugaverða kenningu snemma á 20. öld. Hún snýst um að á hverjum tíma, á ákveðnu svæði, verði stundum ein hugmynd eða fyrirbæri algjörlega allsráðandi. Sé grunnstoðin að öllu samfélaginu að menn komist hreinlega aldrei út úr henni, þrátti fyrir að þeir sjái gallana. Svoleiðis var Guð á miðöldum í Evrópu. Enginn gat hugsað út fyrir vilja Guðs og vald kirkjunnar. Þegar Marteinn Lúter gerði sína byltingu datt honum ekkert í hug annað en að breyta kirkjunni. Komst ekki út fyrir Guð. Hann var miðlægur í öllum átökum, allri stéttaskiptingu, öllum ójöfnuði, stríði, galdraofsóknum, öllum viðbjóðnum sem viðgekkst. Auðvitað kom svo í ljós að þessi miðlæga hugmynd var ekki annað en skálkaskjól. Þeir sem töglin höfðu og hagldirnar voru þeir einu sem brutu lögmál Guðs eins og þeim hentaði (og gera enn) en þrautpíndu almenning til að fylgja ritningunni, hvað sem það kostaði. Framþróun í vísindum og þekkingu var líka stöðvuð, að miklu leyti. Það sem samsamaðist ekki ritningunni mátti ekki rannsaka.
Svo komu menn til sjálfra sín. Og þá kom Endurreisnin.

Í dag eru það peningar. Öll stríð. Öll mengun. Allur fáránleikinn í umgengni okkar við annað fólk og náttúruna viðgengst þar sem tilgangurinn helgar meðalið. Tilgangurinn er peningar. Og þeir sem hafa alræðisvald yfir peningunum geta látið skuldirnar sínar hverfa. Rænt eina þjóð, stungið undan óteljandi milljörðum, en gengið samt um með tandurhreinar kennitölur eins og nýfædd lömb. Skríllinn verður samt að borga skuldirnar sínar. Borga skatta og borga fyrir alla þjónustu, stóra og smáa. Þannig er lögmálið. Og það er ekki hægt að rannsaka hvað liggur handan veldis peninganna. Það fæst ekki fjármagn til þess.

Það verður gaman þegar veldi peninganna hrynur. Og það gerir það. Sprungurnar eru orðnar mjög áberandi. Þá sitja þeir sem töldu sig á toppnum allt í einu uppi með haug af pappír. Og ekkert að éta.

Þá skal maður nú glóta, ef maður verður ekki dauður.

---

Svo gýs bara meira og skelfur landshorna á milli.
Kannski miðaldamenn hafi haft rétt fyrir sér og Skrattinn sé á leiðinni upp að innheimta sálirnar sem hann keypti?

Engin ummæli: