21.9.10

Feitan og ljótan

Hálfníu. Búið að slökkva á feisbúkk. Byrjað að ræsa heilaræksnið. Kaflinn sem á að klárast í lok september þarf að lengjast um einar 20 blaðsíður. Sem ég held að sé ekki stórmál. Svona frekar spurning um að vera í stuði en nokkuð annað. Spurning hvað maður á að fabjúlera um í dag.

Í gær var ég með feituna. Svalt heilu hungri og fór í leikfimi og er ögn skárri í dag.

Annars hef ég verið að pæla heilmikið í þessu með feiturnar og ljóturnar. Það er þannig að stundum þegar mér finnst ég vera of feit og segi það við einhvern þá fæ ég undarlegustu viðbrögð. Sumir (kannski sérstaklega karlmenn) fara mikinn um að karlmönnum finnist bara ekkert endilega flottara að konur séu mjóar. Aðrir (kannski aðallega konur) fara að ræða brengluð fegurðarviðmið í Hollívúddheiminum og svo framvegis.

Það er ekki útaf því hvað einhverjum óskilgreindum karlmönnum finnst að ég fæ feituna. Enda hefst aldrei annað upp úr eiginmanninum að ég sé alfullkomin á alla kanta, sama hvernig lögunin er. Aðrir karlmenn hafa ekki atkvæðisrétt í málinu. Mér er líka sama hvað öðrum konum finnst. Enda held ég að flestum öðrum sé almennt sama hvernig ég er í laginu.

Það sem ræður því hvernig ég vil vera er... ég.

Jú, vissulega er það trend tímans að flottara sé að vera mjór en feitur. Ég held að það helgist af fágæti og heilsufarsástæðum. Einu sinni voru fleiri mjóir en feitir og heilsufarsvandamál tengdust almennt vannæringu. Þá var flott að vera feitur. Núna eru fleiri feitir en mjóir og heilsufarsvandamál tengjast gjarnan offitu. Dæmið hefur snúist við.

Hvar maður vill vera á skalanum er hins vegar undir manni sjálfum komið.
Öllum öðrum er líka meira og minna sama.

Og ég vil helst að mittið á mér beygist innávið.
Mér finnst það bara svo fagurt!

Jæja, einn-tveir-og-þrír...

3 ummæli:

Spunkhildur sagði...

Eins og ég hef alltaf sagt. Hætta að keppa við hið óþekkta og keppa frekar að því að bæta metið og sigra sjálfan sig....

Berglind Rós sagði...

Mér finnst samt skemmtileg sagan sem klippikonan sagði mér af vinkonu sinni. Sú hafði einhvern tímann lesið að ef maður væri með ljótuna (a.m.k. upphátt) þá smitaðist það yfir á börnin manns og maður innrætti þeim að vera óánægður með sig. Hún tók þetta svo til sín að hún er stöðugt að segja svo fimm ára dóttir hennar heyri til hluti eins og "finnst þér mamma ekki sæt í dag", "oh hvað ég er ánægð með mig", "mikið lít ég vel út í dag" og svo framvegis. Gaman að því :-) Og virkar örugglega líka til að heilaþvo sjálfan sig. Ég hef reyndar ekki tekið þetta upp sjálf, en kannski ætti maður að prófa...

Sigga Lára sagði...

Hmmm. Áhugaverð nálgun...

Annars held ég að dóttir mín nálgist spegla álíka sjaldan og ég gerði á hennar aldri og er þar að auki ævinlega eins og skítahaugur.

En ég fer oft mikinn um hvað hún er sæt. ;)