21.10.10

Gerum við kannski bara of mikið?

Undirrituð dratthalaðist ekki í vinnuna fyrr en um 10-leytið. Eftir 12 tíma svefn. Er þar að auki að drepast úr leti og nennir ekki nokkrum sköpuðum hlut. Sem er hreint ekki gott. Fyrir liggja 35 blaðsíður af ritgerð, fullar að splunkunýjum og ilmandi athugasemdum frá leiðbeinanda sem gott væri nú að fara í á meðan ég man enn um hvað þær snúast síðan á fundinum okkar fyrir helgi. Aukinheldur sýnist mér þarna vera sóknarfæri á að lengja þennan kafla um allt að því helming með ekkert svo mikilli fyrirhöfn. Og það er nú alltaf frekar skemmtilegt. Þetta kemur til af öllum stöðunum þar sem stendur "útskýra betur".

Ég elllska að útskýra betur. Það þýðir... ja nákvæmlega það. Útskýra betur hvað ég er að hugsa. Ekki uppfletti nema það sé eitthvað sem ég man eftir að ég geti notað. Engin yfirlega eða lestur á þykkum doðröntum sem ég skil ekki. Bara... útskýra betur.

Eins og þetta ætti ekki að vera nóg ástæða til að maður sparki sér í gírinn þá er kynning á doktorsverkefnum eftir viku. Hvar ég ætla að tala um mitt í einhverjar... 15 mínútur, held ég. Það er ekki langur tími. Ég þarf að velja hvað ég ætla að segja af gríðarlegri kostgæfni. En svo langar mig nú líka til að hafa þetta skemmtilegt, sko. Mögulega með myndefni og svona.

Já, og daginn eftir þennan fyrirlestur rennur út frestur til að skila inn umsóknum til að tala á ráðstefnu um póstdramatískt sem/eða pólitískt leikhús í London í september næstkomandi. Líklega er þetta erfitt í að komast og svona, en væri svalt og ég verð að senda eitthvað.

Þannig að þetta gengur ekki! Bara alls ekki! Það endar með því að ég þarf að nota nasistaforritið aftur og slökkva á internetinu! Sveimérþá!

Annars eru Rannsóknarskip og Unglingabátur að detta í vetrarfrí. Í fyrsta sinn ever ætlum við ekki að fara neitt, heldur bara hanga heima, ég og þau litlu í "vinnunum" og enginn þvælingur á neinum. Ég reikna með að eiga einstaklega þrifalegt heimili að tæpri viku liðinni.

Engin ummæli: