19.10.10

Hvaðan koma eiginlega allar þessar frábæru hugmyndir?

Átakið „allt sem ég geri í október er Æðislegt“ er að hafa hin undarlegustu áhrif.

Jú, ég er enn með bullandi þunglyndiseinkenni. Syfjuköst sem hellast yfir mig þegar minnst varir. Kvíði fyrir ýmsu, sérstaklega öllum félagslegum samskiptum, þó ég yfirvinni það með Æðislegunni, og það er stutt í pirrurnar á mér.

En þegar ég er vakandi, með pirrur og kvíða í lágmarki, eru hugmyndirnar einhvernveginn... já, bara snjallari en venjulega. Það eru að rifjast upp allskonar sem mig hefur langað til að gera og komast í verk.

(Barnabókin Soffía mús er í augnablikinu hjá myndskreytara annars vegar og hjá bókaútgáfunni Bjarti/Veröld hins vegar, sem telur þó ekki líklegt að hún komist út fyrir jól... sem var líka bjartsýni, fyrsta skrens hefur verið tekið á íslenska textanum að Someday at Christmas, sem gaman væri að fara yfir með yrkfræðingi.... hei! Best ég sendi pabba mínum hann! Sko, hugmynd!)

Í dag rifjaðist upp hugmynd að grein annars vegar og þýðingu hins vegar... Anna í Grænuhlíð, gamla og glataða þýðingin og endurútgáfa.

Og svo fékk ég hugstrump varðandi doktorsritgerðina mína. Smíði hennar hefur farið þannig fram að ég skrifa eitthvað, hitti svo leiðbeinandann minn, hann segir mér að laga eitt og annað, ég geri það... og skrifa svo meira, og þannig áfram og áfram. Nema nú finnst ég mér vera komin í hring, einhvernveginn. Og mér finnst þetta vera afturábak. Svo það sem ég ætla að gera núna er að finna mér kennsluefni um hvernig doktorsritgerðir eiga að vera uppbyggðar og allskyns gagnleg trix. Síðan ætla ég að segja köllunum að búa til kúrs úr þessu sem eigi að vera skylda á fyrsta ári í doktorsnámi. Ef þessi háskólanefna getur ekki haldið úti svoleiðis hefur hann ekki nokkurn hlut með doktorsnám að gera. Augljóslega.

Mér hefur líklega aldrei d0ttið jafnmargt í hug á hálfum mánuði. Ég velti fyrir mér hvort sé kannski eitthvað samhengi á milli þunglyndis og snilli, eftir alltsaman. Að miklir listamenn þurfi að þjást mjög mikið. Hugmynd sem mér finnst iðnvæðing lista og skemmtana hafa svolítið hent fyrir borð.

Einu sinni fór ég á fyllerí með Árna heitnum Ibsen og ég man að við ræddum þetta heilmikið. Hann sagði mér frá því að þegar hann var að skrifa Himnaríki, sem er líklega hans fyndnasta verk, þá voru veikindi og erfiðleikar í kringum hann og hann var mjög þunglyndur. Oft sprettur líka það skemmtilegasta sem manni dettur í hug að gera út úr einhverri alveg vonlausri aðstöðu.

Og hvað með Ísland?

Þrátt fyrir að ekkert sé í fréttunum nema mínustölur og kjaftæði, þá finnst mér ég verða vör við miklu meira af snjöllum hugmyndum núna en fyrir hrun. Ásta og Auður eru búnar að búa til menningartímaritið Spássíuna. Svavar Knútur er með prógramm öll fimmtudagskvöld. Hugleikurinn minn er farinn að sýna leikrit heima hjá sér, eitthvað sem var aldrei "hægt". Hljómsveitir spretta upp eins og gorkúlur. Viðburðaprógrammið á fésbókinni minni er þannig að maður þyrfti aldrei að koma heim til sín. Fyrirlestrar, sýningar, myndlist, námskeið, hönnun á allskonar.

Líklega geta engir peningar örvað sköpunargáfuna líkt og almennilegt þunglyndi gerir.

Engin ummæli: