4.10.10

Gloppótta bloggritúalið

gefur góða mynd af því hversu mikið ég er í vinnunni þessa dagana. Síðasta vika fór í horið og þar með er ég opinberlega komin 2 vikur á eftir áætlun. Aukinheldur hefur bæst við einn fyrirlestur og hugmynd að öðrum til að sækja um að komast á eina ráðstefnu, þannig að október fer í uppvinnslur og aukaverkefni. Þannig er þetta bara.

Annars var ég með ormana á Egilsstöðum um helgina. Var alveg búin að gleyma hvað Héraðið er gjörsamlega gargandi brjálæðislega fagurt í haustlitunum. Alveg væri ég löngu flutt... ef ekki væri fyrir eineltið í skólanum og endalausu fjárans minniháttarkenndina í bæjarbragnum. Egilsstaðabúar eru nefnilega and-Þingeyingar. Það er ekki bara bannað að vera montinn, það er líka bannað að hafa áhuga á einhverju og vilja gera vel það sem maður gerir. Tala nú ekki um að reyna að finna uppá einhverju nýju og stunda framfarir. Þá eru menn að „þykjast vera eitthvað“ og eru plaffaðir niður! Samt ekki opinberlega, það gerist yfir kaffibollum á bakvið eldhúsgardínur. Og svo er einelt. Og allir jafnnojaðir.

Það er reyndar hægt að komast í kringum þetta. Til dæmis með því að búa í gamla bænum, helst á Laufásnum, og senda börnin í skóla norður í Fellabæ eða inn á Hallormsstað.

Ég velti því oft fyrir mér hvort hægt væri að finna flöt á því að búa á Egilsstöðum. Sérstaklega þar sem krakkarnir alveg elska að vera þar og nálægt við afa og ömmuhjónin væri vissulega plús. Ekki veit ég reyndar hvort unglingurinn myndi vilja vera þar, en það er þarna auðvitað ágætis menntaskóli, sem Rannsóknarskip gæti kannski kennt í... og svo er þetta nú allt í frekar fjarlægri framtíð. Kannski er stærsta spurningin hvað ég myndi gera þar. Þyrfti eiginlega að vera orðin alveg sjálfbær rithöfundur og fræðimaður. En verður maður ekki hálfgeðbilaður á að reyna það, þarna? Svo er auðvitað hin hugmyndin okkar Rannsóknarskips... að stofna bókabúð/forlag. Þarna væri nú sennilega alveg hægt að forleggja og selja eina og eina bók, sosum. Tómt atvinnu- og íbúðarhúsnæði í ferkílómetravís.

Neinei. Nú erum við komin dáldið inn í framtíðina. Planið er að vera hér þennan vetur og næsta og síðan næstu tvo þaráeftir í Vancouver. Sennilega alveg nóg að vera búinn að skipuleggja sig fram til 2014.

En það er nú gaman að eiga sér allskonar draumóra.

Best að skrifa eitthvað gáfulegt um Postdrama, snöggvast.

Engin ummæli: