21.4.11

Er sumarið kom yfir... Tímon?!

Ég veit ekki betur en að 10 stiga hiti og rigning með köflum sé einmitt sumarveður í Reykjavík og nágrenni. Jafnvel bara á Íslandi.

Heimilið í Koppavoginum er alveg farið að líta einhvernveginn út. Enda er Unglingurinn í Danmörku og þau yngri með krónískt kvef sem líklega næst ekki úr nema með endalausum inniverum þannig að það er ágætt að hanga bara inni, þennan skír-sumardaginn fyrsta.

Komst þó að þeirri tragísku staðreynd að líklega hef ég ofnæmi fyrir dásamlega Lazyboy-sófanum hans Ella frænda. Ætlaði ekki að vilja horfast í augu við þetta, en stoðgrindin er öll að drepast og er snöggtum skárri eftir dags sófabindindi. Bót í máli að ég get þá haft okkar alveg útaf fyrir mig, og nú snýr hann rétt fyrir ligg.

Það er búið að ganga frá eiginlega öllu. Eftir að fara eina smá ferð í hjálpræðisherinn og Foreldrarnir Verðandi eftir að fá í hausinn haug af barnafötum. Samt er enn pláss í geymslunni! Þetta er svakalegt.

Borðtölvan er komin upp. Bara eftir að yfirfara, öppreida, vírusverja, og svona. Þá er hún tilbúin til heimaverkefna.

Úthverfadoðinn hefur lagst yfir. Allur saman. Ég skrópaði á öll Færeyingafyllerí um helgina og það hvarflar ekki einu sinni að mér að fara nokkurn skapaðan hlut nálægt hundraðogeinum um páskana. Langar hins vegar svakalega að prófa að hlaupa um eyðilendur kópvogskra útivistarsvæða.

(Enda er Bandalagsþing í Öðru Úthverfi (Mosó) helgina eftir páska. Það verður sjálfsagt eitthvað. Og skóli í júní. Svo það er víst best að hvíla sig bara.)

Allt er stærra í Kópavogi. Íbúðin okkar er öll stærri en virðist í fyrstu. Allt dótið manns hverfur hérna. Og bílastæðið okkar, sem ég þorði ekki að leggja í í fyrstu af því að mér sýndist það vera svo þröngt, reyndist vera á stærð við fótboltavöll. Svo fór ég í kópvogsku Krónuna. Jemundur minn. Það fæst nú allt, og mikið af því. Hroðalega held ég að maður geti orðið feitur af að búa í Kópavogi, ef maður passar sig ekki. (Dettur mér nú í hug mjög gott dæmi, opinbera fígúru, jafnvel táknmynd, bæjarins, en ætla ekki að nefna nein nöfn.)

Eins gott að fara að koma sér á eitt þessara fjölmörgu hjólaverkstæða í grenndinni og láta lappa upp á hjóltíkina. Hún er eitthvað vond í gírunum. (Á ekki péning til að endurnýja bykkjuna alveg fyrr en í haust.) Fara svo að myndast við að hjóla í vinnuna. Mér skilst að það taki ekki nema eitthvað kortér, ef almennilega er hamast á pedölunum. Líka gaman að vera alltaf einn af þessum ferlega fersku sem mæta alltaf með mjó læri og magavöðvana grjótharða og vindbarðir í framan, alveg ljónhressir, án þess að hafa fengið sér kaffi.
Óþolandi fólk.
Ég ætla að verða svona. Bráðum.

Engin ummæli: