23.4.11

Er internetið bóla?

Ég man þegar ég frétti fyrst að tilvist þessa sem ég man ekki hvort þekktist þá undir nafninu "internet" eða bara sem eitthvað allt annað. Eini netvafrinn sem ég þekkti fyrst um sinn minnir mig að hafi heitið gofer. Gulir stafir á svörtum skjá og engar myndir. Það sem þessi stjarnfræðilega uppfinning gerði fyrst og fremst fyrir mig var að geta talað við eitthvað af vinum mínum í Reykjavík á ircinu, frá Háskólanum á Akureyri. Frá tölvuveri til tölvuvers, vitaskuld. Næstum enginn var ennþá með tölvu heima hjá sér, og alls enginn með internet. Þetta var líka fyrir tíma gsm, í húsinu sem ég bjó var bara tíkallasími niðri í kjallara sem enginn svaraði nokkurn tíma í. Það var ekki búið að finna upp tölvupóstinn.

Þetta var veturinn 1993-1994 og ég minnist þess ekki að hafa fundist ég neitt sambandslaus við umheiminn, eða neitt.

Smám saman hefur síðan tæknin undið uppá sig. Bloggið kom (og fór?) og maður gat farið að fylgjast með sumum vinum sínum. Svo ekki sé nú minnst á Snjáldurskinnubyltinguna. Og svo náttúrulega Google og Wiki. Núna er hægt að komast að öllu sem maður vill. Sem er ágætt, í sjálfu sér. Facebook getur alveg skemmt manni, ef manni leiðist. Og stundum skrifar einhver eitthvað gott í netmiðlana.

Það er þó ekki frá því að mér sé farið að leiðast aðeins á internetinu. Oft hangi ég þar án þess að vita svo sem hvað er ég að gera. Fréttafíknin sem heltók mig í kringum hrun og byltingu hefur snúist upp í andhverfu sína. Engar fréttir eru góðar fréttir og allar fréttir eru kjaftæði. Sjaldnar og sjaldnar nenni ég á fésbókina. Örsjaldan fær maður áhugaverða tölvupóst... það er ekki nema maður sé alveg brjálað að skipuleggja eitthvað skemmtilegt í kjötheimum. (Eða einhver segist ætla að borga manni péning fyrir eitthvað... sem er sjaldnar en ekki.) Fáir skrifa lengur blogg. Svo ekki sé nú minnst á hallærið þegar manni dettur ekkert í hug til að gúggla eða wikipedia...

Kannski er ég búin að komast að öllu.

Kannski er internetið bara bóla.

Engin ummæli: