23.8.11

Er Framsóknarflokkurinn fótboltalið?

Jæja, þá ýmist hrauna menn yfir Guðmund Steingrímsson, eða Framsóknarflokkinn, eða hvurttveggja. Þetta minnir mig mest á þegar fótboltalið í ensku selur einhver frægan. Þá byrjar þetta: „Isss, hann söööökkaði hvortsemer!“ frá þeim sem halda með liðinu, „Neeeei, liðið söööökkaði!“ frá þeim sem keyptu manninn og „Issss, þetta söööökkar alltsaman!“ frá þeim sem halda með einhverju allt öðru liði.

En þetta eru ekki þessir skylmingarþrælar nútímans sem við köllum fótboltamenn sem hér um ræðir. Heldur íslensk stjórnmál. Sem útskýrir líklega hvers vegna ég skil ekki ölduganginn. Aldrei almennilega fattað íslenska pólitík.

Maðurinn gekk úr einum flokk í annan sem honum þótti hann eiga meiri samleið með. Á tímum mikilla breytinga. Síðan breyttist ýmislegt í eftirmálum hrunsins, Framsóknarflokkurinn tók mjög einarða stefnu í ýmsum málum og Guðmundur og fleiri eru, þannig séð, landlausir í pólitík. Það er alveg satt. Umhverfisverndunar- og ESB-sinnar í mið- og hægrinu eiga í rauninni engan flokk. Samfylkingin nær þessu fólki ekki vegna þess að (þó Össur virðist hafa verið búinn að gleyma því í fréttunum áðan) þá var Samfylkingin tilraun til að sameina vinstriflokka. Og það er nú bara grundvallarmunur á því að vera vinstrisinnaður eða hægrisinnaður.

Mér finnst þetta skiljanlegt. Það er alveg eðlilegt að flokkar skilgreini sig upp á nýtt eftir að efnahagur landsins hefur hrunið. Og þó svo að margir reiðifíklar spani sig reglulega upp í „ekkert-hefur-breyst“-haminn, (aðallega vegna þess að spillingin er alveg eins og peningar eru ennþá bara til hjá þeim sem eru sumari en aðrir) þá er ýmislegt samt að taka miklum breytingum. Bara til dæmis það að núna tökum við eftir spillingunni, rífum dáldið kjaft yfir henni og étum ekki óhroðann úr elítunni algjörlega hráan eins og sushi, samanber það sem gekk og gerðist 2007. Það hefur breyst.

Það er líka ekki bara nýtt að stöku stjórnmálamaður fylgi sinni sannfæringu, mér finnst eiginlega nýtt að stjórnmálamenn hafi sannfæringu. Og það gleður mig.

Það er eins og það pirri menn að Guðmundur ætli kannski að stofna nýjan flokk. (Eða kæti þá sem halda að hann „taki fylgi frá“ hinum eða þessum... setjiði „skori marki hjá“ í staðinn og við erum aftur komin í fótboltann.) Ég er alls ekki að skilja hvers vegna. Þarna vantar klárlega flokk. Það er örugglega slatti af fólki á þessari skoðun. Og hvert hafa þessir fáu og risastóru, foringjahollu skrímslaflokkar komið okkur, svo sem?

Helst vildi ég fá að kjósa einstaklinga á þing. Bara eins og á Stjórnlagaþingið. Það næstbesta er að annarhver þingmaður stofni flokk fyrir næstu kosningar. Svo mætti Gnarrinn koma og jafnvel fleiri snillingar, hver með sinn Bestaflokk, þannig að gjörsamlega ómögulegt verði að stofna neinn meirihluta til að múlbinda nokkurn mann og þá þurfa menn loksins að fara að hugsa um hvað þjóðinni er fyrir bestu, þarna inni á þinginu, í stað þess að dingla bara aftan í einhverjum sækópatískum formanni sem er síðan kannski bara að hugsa um eigið raðskat.

Og þó þeir geri það allir, ja, 63 raðsköt hljóta að eiga sameiginlega hagsmuni með fleiri þegnum þjóðarinnar en fjögur.

Jamm og já.
Áfram Höttur!

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég vil sjá síðustu setninguna á einhvers konar T-bol.

Ásta

(Google er með vesen)

Stefán Vignir sagði...

Raðskat er núna uppáhaldsorðið mitt.

Nafnlaus sagði...

Sko, öll þessi 63 raðsköt eiga alla vega eitt sameiginlegt, að þurfa að skíta reglulega (pardon mæ frens) Annars er eitthvað rosalega mikið að!

Vilborg

Og já, Google er með vesen)

Sigga Lára sagði...

Áfram Höttur?
Það er örugglega til.