22.8.11

NEI!

Það var ekki auðvelt að læra að segja nei. Næsta skref er að segja nei við sjálfa mig. Núna vill leiðbeinandinn minn að ég fari að skrifa ritgerð. Kennslustyrkurinn sem ég var að fá er ekki háður því að ég kenni nógu mikið (eins og ég hélt) heldur því að ég kenni nógu LÍTIÐ og skrifi nógu MIKIÐ.

Svo, ókídók.

Þá er komið að því að fórna rækilega. Ég ætla (líklega, nema ég missi mig á síðustu stundu) að skrópa á leiklistarhátíðina Lókal. Skráði mig líka úr einstaklega spennandi kúrsi í Gamanleikjum hjá Terry Gunnell. Sem var hræðilega erfitt, rannsóknin mín er bara að fara í allt aðrar áttir og ég get líklega ekkert notað það sem er í honum. Og svo er það bara að djöflast í skriftir og lestur og meiri skriftir. Og mögulega einhver viðtöl. Og allskonar.

Svo þarf ég að fara að hunskast út að hlaupa. Það gerist ekkert nema maður hreyfi sig. Helst mikið. Allavega nóg.

Og svo er alveg nauðsynlegt að éta passlega og sofa nóg. Hvíla sig rækilega og halda hvíldardaginn alveg snarheilagan.

Ókei?

Ókei.

3 ummæli:

BerglindS sagði...

Sigga, þú ert í námi til að læra eitthvað nýtt. Það er frábært. Margir fara í skóla til að fá gráðu og kannski í framhaldinu vinnu. Þú ert hæfilega ópraktísk og verulega nýjungagjörn - svo úr verður gjarnan eitthvað praktískt og gefandi. Ef það skyldi fara á milli mála tek ég fram að þetta er hrós og það bæði feitt og fallegt. Ég vildi að fleiri væru svona uppblásnir yfir því skemmtilega sem þeir læra í lífinu.


Svo finnst mér að þú eigir að mæta til Terrys Gunnells. En það er náttúrlega bara skoðun.

Sigga Lára sagði...

Takk fyrir það. :)

Það getur vel verið að ég mæti í eitthvað af tímum hjá Gunnell. Ég má bara ekkert vera að því að gera verkefni eða taka próf hjá honum.

BerglindS sagði...

Nei, bara mæta og blogga um það, hmm?