27.9.03

Laugardagskvöld byrjar vel
Horfði á Survivor í beinu símasambandi við minn elskling. Svo er fólk eitthvað búið að vera að pota í mig að koma mér út úr húsi, á stuðmannaball eða eitthvað þaðan af verra. Minnug hávaðamengunar bæjarins síðasta laugardagskvöld ákvað ég ekkert að vera að eyðileggja kvöldið með svoleiðis vitleysisgangi, en hitta frekar fólkið mitt einhvern tíma þegar ég get heyrt hvað það er að segja.

Þess í stað tók ég pólitíska ákvörðun, sníkti bjór hjá föður mínum, fékk leyfi til að reykja fyrir framan tölvuna í smá stund og ætla að reyna að koma frá mér skipulega nokkru sem er búið að bögga mig í marga mánuði, ef ekki ár.

Það er þetta með lýðræðið
Þessa dagana (mánuðina... árin) er tíska að segja, við ýmis tækifæri: "Þetta er móðgun/svik/árás við/á lýðræðið."
Hvert hnjask sem innrásarher Bandaríkjamanna verður fyrir, í hvers landi sem hann er, er móðgun við lýðræðið.
Íslenskur stjórnmálamaður lét það út úr sér um daginn að morðið á Önnu Lindh hafi verið árás á lýðræðið. (Mér er það stórlega til efs að það hafi verið það sem nojusjúklingurinn hafði í huga.)
Meira og minna allt sem heimsins sótraftar hafa gert af sér í hinum vestræna heimi síðan árásin á Tvíturna var gerð hafa verið glæpir gegn lýðræðinu í einhverju formi.
Ég er mikið búin að klóra mér í hausnum yfir þessu og hélt jafnvel að orðið lýðræði væri eitthvað sem ég væri búin að misskilja árum saman. Ég fór að fletta upp. En, nei, samkvæmt orðabókinni er lýðræði jú enn skilgreint sem:

Sjórnarfar þar sem almenningur getur með (leynilegum) kosningum haft úrslitavald í stjórnarfarsefnum; réttur og aðstaða einstaklinga og hópa til að láta í ljós vilja sinn og hafa áhrif á öll samfélagsleg málefni.

Ennfremur segir í Rétti, fræðsluriti um félagsmál og mannréttindi 1915:

Lýðræði merkir það, að lýðurinn ráði --- það er þjóðin --- allur almenningur.

Orðið lýðræði þýðir sumsé akkúrat það sem ég hélt.

Lýðræðinu er hins vegar illa framfylgt í landi þar sem menn geta talið þrisvar upp úr kjörkössum eftir forsetakosningar og aldrei komist að sömu niðurstöðu. Sovétmenn skrifuðu kannski sjálfir á kjörseðlana með vodkaglasið í hinni hendinni, en þeir gátu þó talið þá. (120 % fylgi, takkfyrir.)
Að sama skapi hlýtur að þykja undarlegt að eftir þær sömu kosningar standi maður uppi sem sigurvegari sem ekki hlaut meiri hluta atkvæða. Ennfremur má telja næsta ólýðræðislegt að tveir þjóðhöfðingjar kjósi að eyða almannafé í stríð sem ekki verður betur séð en að stór hluti, ef ekki meiri hluti, þjóða þeirra er á móti.

Það er kaldhæðnislegt að enginn skuli nota meira klisjurnar um glæpi gegn lýðræðinu en George Bush. Ég held kannski að hann viti hreinlega ekki hvað orðið þýðir. Ef hann veit það, ætti hann allavega að hafa vit á að vera ekki að taka sér það orð í munn of mikið.

Og svo þetta með heilann
Færi maður hins vegar út í þessa sálma við Bush-hlynntan Bandaríkjamann gæti svar hans alveg eins verið: "If you're too open minded your brain will pour out..."
Önnur undarleg setning sem mér finnst ég alltaf vera að rekast á. Í hinum vestræna heimi nútímans er nefnilega bannað að brúka gagnrýna hugsun. Fari menn að velta málum of mikið fyrir sér þá er umræðunni gjarnan lokið með þessu flipp-kommenti. Ég heyrði meira að segja vin minn Andy Rooney bregða þessu fyrir sig í vor, og var mér þá allri lokið.

Áróðursmeistarinn sem fattaði upp á þessu ætti að fá nóbelinn. Þessi brandari er eiginlega ekki nógu fyndinn, og væntanlega vita allir að heilinn lekur ekki úr manni, sé maður of víðsýnn. Þetta virðist samt vera að virka!

Sem sagt, höldum öll áfram að misnota lýðræðið þangað til við erum búin að gleyma hvað það upphaflega þýddi, annars lekur úr okkur heilinn.

Ignorance is Bliss!

Er að velta því fyrir mér hvort ég á að rölta til Bitla upp á Nielsen eða fremja stórglæp gegn lýðræðinu og fara að sofa stuttu eftir miðnætti á laugardagskvöldi.

Engin ummæli: