20.11.03

Jólafýla
Þá er jólaskapið komið í suma, og þá náttúrulega um leið, jólafýlan í aðra.
Jólafýlupúkarnir fitja upp á nef sér þegar þeir fara að sjá jólaskraut í nóvember, kvarta yfir tímaleysi til jólaundirbúnings, peningaleysi til jólagjafakaupa og öfundast út í þá sem græða á öllu saman. Mig langar til að svara öllum sem eru með jólafýlu í eitt skipti fyrir öll.

1. Jólaskraut í nóvember. Í nóvember er myrkur þegar maður fer í vinnuna og myrkur þegar maður fer úr vinnunni. Ef menn hafa áhuga á því að hengja upp viðbótarljós og annað fallegt í nóvember þá held ég það sé bara hið besta mál og gæti sparað þjóðinni slatta af þunglyndispillum. Hver er líka tilgangurinn með því að hafa allt draslið í geymslu 11 mánuði á ári?

2. Tímaleysi við jólaundirbúning. Sem betur fer stendur ekkert um það í stjórnarskránni hvernig jólaundirbúningur skuli fara fram. Þyki mönnum ekki gaman að baka og kannski kökur ekki einu sinni góðar þá má bara sleppa þeim. Svo þarf að fara að kenna húsmæðrum landsins að meta þá staðreynd að jól eru haldin í svartasta skammdeginu og þá sér enginn skítinn uppi á eldhússkápunum eða undir þvottavélinni.

3. Peningaleysi til jólagjafakaupa. Menn verða náttúrulega að sníða sér stakk eftir vexti, jólagjafir þurfa ekki að vera neitt dýrar og það er engin keppni í gangi. Annars finnst mér höfuðatriði að komast að því hvað það er sem vini og fjölskyldu langar í. (Ath. langar í, ekki vantar.) Þetta lærði ég af henni Ástu sem hefur ekki enn gefið mér jólagjöf sem ég hef ekki notið og notað lengi. Margir setja upp hundshaus yfir þessu með jólagjafirnar, setja upp einhverja gerfi-helgislepju og fara að tala um að fólk trúi hvortsemer ekkert á Guð o.s.fr.v.
Well, nískupúkar, ef ykkur finnst það til of mikils ætlast að einu sinni á ári eyðið þið einhverjum peningum á eitthvað annað en rassgötin á ykkur sjálfum, þá eruði sálarlaus illyrmi og farið beina leið til Helvítis þegar þið deyið. Guð hefur trúlega hannað jólin til að ykkur frá eilífri grillun. Hafiði huxað útí það?

4. Allir þeir sem græða. Þeir sem græða á jólastússinu er fólk sem á búðir. Að eiga búð trúi ég að sé að alleiðinlegasta sem hægt er að gera við sitt líf. Þetta fólk á alla heimsins peninga skilið. Öfund kemur frá Satni.

Lokapunkturinn er sá að hvort sem Guð er til eða ekki til, hvort sem eitthvað fólk úti í bæ er að græða meira en ég, hvort sem ég gef eða fæ betri eða verri jólagjafir en aðrir, þá finnst mér þetta vera fín afsökun til að reyna að gleðja alla sem mér standa næstir, gleðja síðan sjálfa mig á jólaföstu og jólum við sjálfdekur, ofát og hamslausri gleði með fjölskyldu og vinum. Ég bara skil ekki hvernig menn geta nennt að búa til vandamál úr hátíð ljóss og friðar.


Engin ummæli: