Sssssko.
Ég veit ekki alveg hvar ég á að byrja núna.
Þannig var að einhverntíma um helgina rak ég augun í að í ríkissjónvarpinu á sunnudagskvöld ætti að vera heimildarmynd um söngleik upp úr Njálu sem farið hefði sigurför um heiminn. Ókei. Forvitni mín var mjög svakalega vakin þar sem þetta dæmi hafði alveg farið framhjá mér. Ég horfa.
Svo kom þátturinn. Þar stóð Arthúr nokkur Björgvin á andköfunum í heilan klukkutíma og mærði uppsetningu sem hann hafði sjálfur staðið fyrir og tekið þátt í með sínu sögusetri. Eitthvað sýndist mér annars að honum hefði brugðist leikhúsfræðin, þar sem prógrammið sem um var að ræða var sunginn kvæðabálkur (ljómandi vel sunginn) með einhverjum leikrænum tilþrifum (sem voru reyndar frekar vond) með lesnum texta af sögumanni (Arthúri sjálfum) inn á milli. Söngleikur? IIIiih, ekki síðast þegar ég gáði. Af heimsfrægð kappanna sá ég ekki betur en að þeir hefðu farið í tvær leikferðir, annars var mest lítið fjallað um það.
Hina vegar var mikið gert úr því að þessir ágætu söngmenn væru nú bara venjulegir menn svona þess á milli, með venjuleg störf o.þ.h. Jiiii. Það er náttúrulega alveg nýtt undir sólinni í voru samfélagi!
Ég beið á milli vonar og ótta eftir að sjá hver framleiddi herlegheitin. Jú, það var RÚV. Sem sagt okkar ágæti ríkisfjölmiðill.
Sami ríkisfjölmiðill sem alla jafna birtir ekki umfjöllun um neinslags áhugaleikstarfsemi, safnastarf eða kórastarf í þessu landi. Huxanlega eitt eða tvö innslög í fréttatíma á ári, þá og því aðeins að menn séu að gera eitthvað alveg forkastanlega merkilegt. Þetta var sumsé klukkutíma heimlidamynd.
Ég var farin að urra á sjónvarpið þegar faðir minn sagði "Svona! Vertu ekki með þessa öfund." Þá áttaði ég mig á því að það var nákvæmilega það sem ég var með. Öfund. En, óskaplega réttlátri og skiljanlegri öfund.
Að koma því sem menn eru að gera í lista og menningarlífi á landinu í okkar ágæta ríkisfjölmiðil er nefnilega ekkert áhlaupaverk, eins og allir þekkja sem eitthvað hafa komið nálægt því. Flestir eru búnir að gefast upp á því, nema kannski helst í svæðisútvörpin eða eitt og eitt viðtalsbrot hjá Lísu Páls. Fægðarför sýningar Vesturports á Rómeó og Júlíu til London fékk ekki einu sinni svona ítarlega umfjöllun eða mikinn tíma í sjónvarpinu. (Þessi "heimildarmynd" var nú reyndar þeim sem hana gerðu kannski ekki til neins sérstaks sóma, og vesalings hópurinn kom nú frekar hjákátlega út en það er nú annað mál.)
Maður getur ekki annað en spurt sig. Hvað er málið? Var það Njáluslepjan? Atrhúr Björgvin sjálfur? Er þetta þá bara spurning um að fá einhvern afdankaðan dagskrárgerðarmann í leikfélagið sitt og þar með er kynningarmálum reddað? Eða vita menn hjá sjónvarpinu ekki að til eru mörg safnasetur og fullt af áhugalistum í landinu? Samkvæmt skilgreiningu Arthúrs er heill haugur af leikhópum sem ég veit um búnir að fara "sigurför um heiminn". Ég myndi alveg vilja sjá heimildarmyndina "Bíbí og Blakan fara sigurför um heiminn" sem gengi síðan út á að skoða daglega lífið hjá leikhópnum. Toggi og Sævar borandi í nefin fyrir framan tölvurnar. Silja að skrifa menningarsíðurnar í Mogganum. Tóta að kenna að syngja og Hulda að sjúkraþjálfa fólk. Alveg örugglega meira spennandi!
Bottom lænið er; ég er með öfund. Ég er líka með fýlu. Ef sjónvarp allra landsmanna ætlar að fjalla um listir og leikferðir á það að:
a) gera fleiru skil
b) gera það almennilega
Mér finnst hafa verið stigið illa ofan á tærnar á:
a) mér og mínum vinnustað (bæði verandi og verðandi) og leikfélögum (verandi, verðandi og öllum hinum)
b) hérumbil öllum sem ég þekki
Er alvarlega að huxa um að senda Markúsi Erni "howler".
16.11.03
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli