21.11.03

Búin að rýna í einþáttungaprógramm Veru á Fáskrúðsfirði og kjafta um það í útvarpið. Þangað til það er búið að sendast út eru varir mínar síld.

Stend frammi fyrir þeirri undarlegu aðstöðu að ég er ekkert skipulögð í neitt nytsamlegt um helgina. Silla formaður er hins vegar búin að bjóða mér í mat í kvöld og svo eru Nanna og Jóngeir víst að mæta á svæðið. Sé fram að að þurfa að rifja upp hvernig félagslíf fer fram... mjöög spennandi.

Svo er það náttúrulega bílskúrinn og ritgerðin og leiðaraskrif í Gletting. Þar sem leiðari síðasta tölublaðs fjallaði um það hversu miklu klárari Héraðsmenn eru heldur en Fjarðabúar til ritstarfa, og enginn varð brjálaður, þá held ég að svoleiðis fyrirbæri geti fjallað um nánast hvað sem er. Það les þetta greinilega hvortsemer enginn.

Og í dag virðist ekki ætla að koma dagur á Austurlandi. Ég var eiginlega alveg búin að gleyma því hvað heimskautamyrkrið getur verið niðurdrepandi.

20.11.03

Jólafýla
Þá er jólaskapið komið í suma, og þá náttúrulega um leið, jólafýlan í aðra.
Jólafýlupúkarnir fitja upp á nef sér þegar þeir fara að sjá jólaskraut í nóvember, kvarta yfir tímaleysi til jólaundirbúnings, peningaleysi til jólagjafakaupa og öfundast út í þá sem græða á öllu saman. Mig langar til að svara öllum sem eru með jólafýlu í eitt skipti fyrir öll.

1. Jólaskraut í nóvember. Í nóvember er myrkur þegar maður fer í vinnuna og myrkur þegar maður fer úr vinnunni. Ef menn hafa áhuga á því að hengja upp viðbótarljós og annað fallegt í nóvember þá held ég það sé bara hið besta mál og gæti sparað þjóðinni slatta af þunglyndispillum. Hver er líka tilgangurinn með því að hafa allt draslið í geymslu 11 mánuði á ári?

2. Tímaleysi við jólaundirbúning. Sem betur fer stendur ekkert um það í stjórnarskránni hvernig jólaundirbúningur skuli fara fram. Þyki mönnum ekki gaman að baka og kannski kökur ekki einu sinni góðar þá má bara sleppa þeim. Svo þarf að fara að kenna húsmæðrum landsins að meta þá staðreynd að jól eru haldin í svartasta skammdeginu og þá sér enginn skítinn uppi á eldhússkápunum eða undir þvottavélinni.

3. Peningaleysi til jólagjafakaupa. Menn verða náttúrulega að sníða sér stakk eftir vexti, jólagjafir þurfa ekki að vera neitt dýrar og það er engin keppni í gangi. Annars finnst mér höfuðatriði að komast að því hvað það er sem vini og fjölskyldu langar í. (Ath. langar í, ekki vantar.) Þetta lærði ég af henni Ástu sem hefur ekki enn gefið mér jólagjöf sem ég hef ekki notið og notað lengi. Margir setja upp hundshaus yfir þessu með jólagjafirnar, setja upp einhverja gerfi-helgislepju og fara að tala um að fólk trúi hvortsemer ekkert á Guð o.s.fr.v.
Well, nískupúkar, ef ykkur finnst það til of mikils ætlast að einu sinni á ári eyðið þið einhverjum peningum á eitthvað annað en rassgötin á ykkur sjálfum, þá eruði sálarlaus illyrmi og farið beina leið til Helvítis þegar þið deyið. Guð hefur trúlega hannað jólin til að ykkur frá eilífri grillun. Hafiði huxað útí það?

4. Allir þeir sem græða. Þeir sem græða á jólastússinu er fólk sem á búðir. Að eiga búð trúi ég að sé að alleiðinlegasta sem hægt er að gera við sitt líf. Þetta fólk á alla heimsins peninga skilið. Öfund kemur frá Satni.

Lokapunkturinn er sá að hvort sem Guð er til eða ekki til, hvort sem eitthvað fólk úti í bæ er að græða meira en ég, hvort sem ég gef eða fæ betri eða verri jólagjafir en aðrir, þá finnst mér þetta vera fín afsökun til að reyna að gleðja alla sem mér standa næstir, gleðja síðan sjálfa mig á jólaföstu og jólum við sjálfdekur, ofát og hamslausri gleði með fjölskyldu og vinum. Ég bara skil ekki hvernig menn geta nennt að búa til vandamál úr hátíð ljóss og friðar.


19.11.03

Uppáhalds...
Við vorum að rífa niður leikmynd dauðans í gær og setja hana í geymslu, ef það martraðarkennda happ skyldi nú henda LF að við "fengjum" að fara með sýninguna í Þjóðleikhúsið og púsla öllu draslinu upp þar. Þegar ég var búin að senda öll karlmenni með draslið í burtu og var ein eftir að dudda mér við að þrífa sviðið (eins illa og ég mögulega kæmist upp með) fór ég að rifja upp uppáhalds setningarnar mínar úr hinum ýmsustu leikritum. Svo sem:

Fiðlarinn á þakinu: "Ég fæ að ferðast með lest og bát!" Dásamleg setning sem krakkaormurinn ég var látin æpa þvert ofan í dramatíska kveðjusenu þegar búið var að reka alla gyðingana í burtu frá Anatevka.

Kardemommubærinn er náttúrulega fullur af klassískum gullpunktum. "Ég kann bara eitt kvæði og það á ekki við hér" hlýtur þó að standa upp úr.

Fáfnismenn er fullt af snilldartexta. Þó er eitt samtalsbrot sem stendur upp úr í minningunni:

Tómas: Getur þú aldrei tekið nokkurn skapaðan hlut alvarlega?
Benedikt: Dauðann og djöfulinn. Annað er hjóm.


Svar sem ég er ennþá að bíða eftir að fá tækifæri til að nota.

Og svo náttúrulega: Þið eruð hreinræktuð idíót, það verður engin fjandans hæna.

Embættismannahvörfin eiga nokkur samtalsbrot. M.a.:

Biskup: Er einhver með eldspýtur?
Korpa: Sjálfur geturðu verið mélskítur.


og

Júlía: Þú ert freknóttur!
Friðþjófur: Ég er það. Þó er ég fyrst og fremst fósturbarn.


Svo var ég að fatta að ég man ekki neitt úr mínum eigins leikritum til að hafa fyrir uppáhaldssetningar. Nema ef vera skyldi í Ungir menn á uppleið:

Kokkur (heyrist öskra framan úr eldhúsi): Ætlar enginn að taka þennan helvítis humar!?

Hún er bara eitthvað svo heimilisleg.

Svo er náttúrulega nýlokið sýningum á Gaukshreiðrinu. Þar á ég alveg skýlausa uppáhaldssetningu:

Ratched (í hljóðkerfið út úr hjúkkubúrinu): Viltu gjöra svo vel að liggja ekki á glerinu! Það koma fingraför!

Svo eru náttúrulega nokkrar setningar sem verða að teljast til uppáhalds þó þær hafi nú bara verið notaðar í lífsins spuna. Þessi varð t.d. til um veslunarmannahelgi 1992 upp úr andnauðgunaráróðri og auglýsingum:

Nei þýðir nei
en
nei er ekkert svar
svo
segðu bara kókómjólk. Það skilja allir.


Fyndin samtalsbrot heyrir maður líka stundum úr tjöldum um útihátíðahelgar. Við heyrðum tvær góðar sumarið 1997:

Heyrt í Eyjum:
Þessi ferð kostaði þig... eitthvað... tólf þúsund... eitthundrað og... fjörutíu krónur... og þú bara sefur!

Heyrt í Þórsmörk:
...og svo ætla þau bara að gifta sig og vera hamingjusöm til æviloka. Hvað er eiginlega að fólki!?!

Endum á einni uppáhalds úr menntaskóla. Úr Öddu eftir Jennu og Hreiðar:

Og þá sagði konan það ljótasta sem Adda hafði nokkrun tíma heyrt. Hún sagði: Adda, þú ert kjáni.

Okkar viðbót, í anda kjaftháttar barna nú til dags:

Þá sagði Adda: Halt þú nú bara kjafti helvítis tussan þín og fróaðu þér á naglaspýtu. Þú getur bara sjálf verið kjáni.

Við þetta svar er síðan hægt að bæta fúkyrðum eftir því sem andinn blæs manni í brjóst.

Er að fara á sýningu á Fáskrúðsfirði í kvöld til að rýna í. Ætla að reyna að skoða ljósmyndasýningu á Eskifirði í leiðinni.
Tóm gleði.

16.11.03

Sssssko.
Ég veit ekki alveg hvar ég á að byrja núna.

Þannig var að einhverntíma um helgina rak ég augun í að í ríkissjónvarpinu á sunnudagskvöld ætti að vera heimildarmynd um söngleik upp úr Njálu sem farið hefði sigurför um heiminn. Ókei. Forvitni mín var mjög svakalega vakin þar sem þetta dæmi hafði alveg farið framhjá mér. Ég horfa.

Svo kom þátturinn. Þar stóð Arthúr nokkur Björgvin á andköfunum í heilan klukkutíma og mærði uppsetningu sem hann hafði sjálfur staðið fyrir og tekið þátt í með sínu sögusetri. Eitthvað sýndist mér annars að honum hefði brugðist leikhúsfræðin, þar sem prógrammið sem um var að ræða var sunginn kvæðabálkur (ljómandi vel sunginn) með einhverjum leikrænum tilþrifum (sem voru reyndar frekar vond) með lesnum texta af sögumanni (Arthúri sjálfum) inn á milli. Söngleikur? IIIiih, ekki síðast þegar ég gáði. Af heimsfrægð kappanna sá ég ekki betur en að þeir hefðu farið í tvær leikferðir, annars var mest lítið fjallað um það.

Hina vegar var mikið gert úr því að þessir ágætu söngmenn væru nú bara venjulegir menn svona þess á milli, með venjuleg störf o.þ.h. Jiiii. Það er náttúrulega alveg nýtt undir sólinni í voru samfélagi!

Ég beið á milli vonar og ótta eftir að sjá hver framleiddi herlegheitin. Jú, það var RÚV. Sem sagt okkar ágæti ríkisfjölmiðill.

Sami ríkisfjölmiðill sem alla jafna birtir ekki umfjöllun um neinslags áhugaleikstarfsemi, safnastarf eða kórastarf í þessu landi. Huxanlega eitt eða tvö innslög í fréttatíma á ári, þá og því aðeins að menn séu að gera eitthvað alveg forkastanlega merkilegt. Þetta var sumsé klukkutíma heimlidamynd.

Ég var farin að urra á sjónvarpið þegar faðir minn sagði "Svona! Vertu ekki með þessa öfund." Þá áttaði ég mig á því að það var nákvæmilega það sem ég var með. Öfund. En, óskaplega réttlátri og skiljanlegri öfund.

Að koma því sem menn eru að gera í lista og menningarlífi á landinu í okkar ágæta ríkisfjölmiðil er nefnilega ekkert áhlaupaverk, eins og allir þekkja sem eitthvað hafa komið nálægt því. Flestir eru búnir að gefast upp á því, nema kannski helst í svæðisútvörpin eða eitt og eitt viðtalsbrot hjá Lísu Páls. Fægðarför sýningar Vesturports á Rómeó og Júlíu til London fékk ekki einu sinni svona ítarlega umfjöllun eða mikinn tíma í sjónvarpinu. (Þessi "heimildarmynd" var nú reyndar þeim sem hana gerðu kannski ekki til neins sérstaks sóma, og vesalings hópurinn kom nú frekar hjákátlega út en það er nú annað mál.)

Maður getur ekki annað en spurt sig. Hvað er málið? Var það Njáluslepjan? Atrhúr Björgvin sjálfur? Er þetta þá bara spurning um að fá einhvern afdankaðan dagskrárgerðarmann í leikfélagið sitt og þar með er kynningarmálum reddað? Eða vita menn hjá sjónvarpinu ekki að til eru mörg safnasetur og fullt af áhugalistum í landinu? Samkvæmt skilgreiningu Arthúrs er heill haugur af leikhópum sem ég veit um búnir að fara "sigurför um heiminn". Ég myndi alveg vilja sjá heimildarmyndina "Bíbí og Blakan fara sigurför um heiminn" sem gengi síðan út á að skoða daglega lífið hjá leikhópnum. Toggi og Sævar borandi í nefin fyrir framan tölvurnar. Silja að skrifa menningarsíðurnar í Mogganum. Tóta að kenna að syngja og Hulda að sjúkraþjálfa fólk. Alveg örugglega meira spennandi!

Bottom lænið er; ég er með öfund. Ég er líka með fýlu. Ef sjónvarp allra landsmanna ætlar að fjalla um listir og leikferðir á það að:
a) gera fleiru skil
b) gera það almennilega

Mér finnst hafa verið stigið illa ofan á tærnar á:
a) mér og mínum vinnustað (bæði verandi og verðandi) og leikfélögum (verandi, verðandi og öllum hinum)
b) hérumbil öllum sem ég þekki

Er alvarlega að huxa um að senda Markúsi Erni "howler".