Ég á í siðferðilegri krísu.
Þannig er að þegar maður vinnur þar sem ég vinn og býr þar sem ég bý þá þarf maður að ganga hluta af Laugaveginum, stundum oft á dag. Ég þarf m.a. að ganga fram hjá nokkrum búðum sem ég VEIT að ég hef ekki efni á að versla í.
Kannski hefur milljónaeyðsla síðustu mánaða stigið mér til höfuðs, en undanfarið hef ég gert þau mistök að láta mig fara að langa... og langa... í dásemdarflík sem ég þarf að ganga fram hjá oft á dag. Í gær hleypti ég í mig kjarki, fór inn í búðina og gáði hvað dásemdin kostaði. 19.900 krónur íslenskar. Þar með hélt ég að málið væri dautt.
Litli eyðslupúkinn í hausnum á mér vildi nú samt ekki alveg gefast upp og minnti mig á það að það er nú alveg að koma frumsýning... og gaman væri nú að vera í nýrri dásemd... á nýja leikritinu...
Þetta er að verða þolraun hin mesta fyrir viljastyrkinn. Og enginn veit hvernig fer.
Annars getur verið að þetta leysi sig sjálft á næstu dögum. Drossían er víst að verða tilbúin, með nýjum ljósum, nýjum dempurum að framan og nýjum og skínandi öxli. Í beinu framhaldi þarf hún að fara í skoðun og á vetrardekk. Þar með gætu nú peningarnir alveg bara eiginlega orðið búnir, óvart, og þá þarf líklega ekki að velta frekar fyrir sér alltofdýrum dásemdum.
En ég komst hins vegar á æfingu á Memento Mori í gær. Sú sýning verður allra dásemda virði, sýnist mér.
Semsagt, enn í krísu.
16.11.04
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli