Nú ætla ég að hætta á að hljóma kannski eins og geðverri systir mín. En:
Það er ekki búandi í þessu helvítis djöfulsins skítalandi!
Þetta er algjörlega veðurtengd pirra.
Það er staðreynd að mér er illa við að keyra bíla. Í hvert skipti sem ég sest undir stýri, sem ég geri ekki nema ég þurfi þess, er ég fullkomlega meðvituð um það að ég sé að fara að stýra maskínu sem er óútreiknanlegri en karlmenn og drepur fleiri Íslendinga en reykingar og skotvopn samanlagt ár hvert. Sérstaklega er mér ekki um að aka í ófærð á svæðum þar sem aðrir bílar eru mikið að þvælast fyrir mér. Í gær upplifði ég mína verstu martröð.
Drossían var sem sagt tilbúin úr viðgerð. Þegar ég tók stóra gula bílinn neðan úr bæ var að byrja að snjóa. Ég gerði mitt besta til að beita fjölkynngi á leiðinni upp á höfða til að breyta snjókomunni í rigningu. Eitthvað klikkaði, þannig að hún breyttist í byl. Og bíllinn á sumardekkjum. Keyrði heim til mín með hjartað í buxunum. Lagði og signdi yfir, þar sem illa skóað greyið fær sennilega bara að bíða vors, nákvæmilega á þessum stað. Ég fer ekki einu sinni að sækja vetrardekkin fyrr en síðasta snjókornið verður horfið af götunum. Mér er sama þó það verði ekki fyrr en um páska.
Dagurinn fór ekki batnandi. Þegar ég var á leiðinni í vinnu Zatans var ennþá bylur. Ég villtist á Miklatúninu. Í fúlustu alvöru. Hefði auðveldlega getað orðið úti. Þegar ég kom í vinnuna var síminn minn svolítið blautur, en virkaði samt. Skömmu síðar lenti hann í kaffitengdu vinnuslysi og hefur síðan ekki verið til viðræðu. Téður sími er líka eina vekjaraklukkan mín. Og ábyrgðarskírteinið af honum hefur eitthvað mislagst í flutningunum og hefur opinberlega verið lýst týnt.
Mitt karma var ekki gott í gær. Held ég þurfi að snúa af öllum villum míns vegar.
17.11.04
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli