14.12.04

Fór á samlestur hjá Hugleik í gær. Ætlaði „bara að kíkja og sjá framan í fólkið“ alveg ákveðin í að „gera ekkert eftir áramót“ en þegar á hólminn var komið greip mig einhver óútskýranleg löngun til að vera aðstoðarleikstjóri. Enda leikstjórar verka vorsins ekki af verri endanum, Bergur Ingólfs og Toggi, en þeir eru þeir einu sem, fattaði ég á leiðinni heim, hafa leikstýrt verkum í fullri lengd eftir mig. Tilviljun? Trúlega.

Ég sumsé bauðst til að vera aðstoðarleikstjóri í hverju sem vera vildi og þar með er planið um að "gera ekkert" farið út um gluggann. En, iss, var einhver að trúa á það?

Og, er búin að skipuleggja leikhúshelgi um þá næstu. Bara svona af því að mér finnst fyndið að hafa leikhúshelgi helgina fyrir jól þegar allar keeellingar eiga að vera uppi á eldhússkápunum, samkvæmt forskrift móður minnar. Finnst ég vera að rebella.

Á föstudaginn ætla ég að vera á Memento Mori, aftur, á laugardag ætla ég að sjá Birdy hjá Leikfélagið Hafnarfjarðar, ef hægt sé, og á sunnudaginn verk Stúdentaleikhússins sem menn halda vart vatni yfir.

Einhvern tíma skilst mér svo að kraftflimtingamaðurinn Snorri minn Hergill sé með uppistand og það ætla ég helst að sjá líka. Síðasta helgi fyrir jól verður semsagt alveg vaðandi í menningu.

Engin ummæli: