17.12.04

Var að átta mig á því að ég hef ekki heyrt í einum einasta jólafýlupoka fyrir þessi jól! Mikil undur. Yfirleitt lendir maður nú alltaf í einum eða tveimur sem segjast „ekki sjá tilganginn með öllu þessu veseni“ eða bölsótast yfir því að einhverjir skulu græða á öllu saman. Svo eru náttlega allir sem eru of matsjó til að viðurkenna að þeim þyki jafnvæmið fyrirbæri og jólin, með öllu sínu glimmeri, falleg og góð.

En, í ár hefur jólafýlan verið víðsfjarri. Reyndar smá hætta á að hún taki að ásækja mig eftir hádegi þar sem ég hyggst eyða eftirmiðdeginu í Kringlunni... Ásamt hálfri þjóðinni.

Talandi um þjóðina, ég lenti á smá hugstrump um heims- og þjóðmálin og var að huxa um að rífa smá kjaft. Endaði í langhundi.

Það er helst í fréttum að ríkisstjórnin ætlar að kaupa verk Sigmunds á 18 milljónir. Ekki það að öll hans verk eru varðveitt, til útgefin og hvur veit hvað, en þegar mann vantar pening er náttlega fínt að vera vinur Sjálfstæðisflokksins. Ætli ég geti selt ríkisstjórninni eitthvað, t.d. sál mína, fyrir 18 milljónir? Þá gæti ég akkúrat keypt piparkökuhúsið.

Og Bin Laden kallinn er búinn að senda frá sér tilkynningu þar sem hann áréttar að stjórnvöld í Sádi-Arabíu séu ekki vinir sínir. Er þetta ekki stórmerkilegt? Sádí er landið sem beinast lægi við að kenna um tilvist hans og Al-Kaída. Á móti kemur að þetta er eitt af fáum löndum sem Bandaríkjamenn vilja alls ekki pota neitt í. Hvað sem mannréttindabrotum, hryðjuverkasamtökum eða gereyðingavopnaeign líður. Og svo skemmtilega vill til að Usama kallinn tekur skýrt fram með reglulegu millibili að þeir séu ekki vinir hans. Tilviljun? My ass. (Mitt félagsheimili.)

Ætla menn virkilega ekkert að fara að sjá í gegnum þetta?

Ég verð alltaf fokvond þegar ég heyri menn halda því fram í fúlustu alvöru að það hafi þurft að koma Saddam og Talebönum frá völdum þar sem þeir hafi verið svo vondir við þegnana sína. Ekki það að það sé ekki alveg laukrétt. En hvað með alla einvaldana í Afríku? Hvað með borgarastíðið í Kongó þar sem 3 milljónum manna var slátrað á 5 árum? Hvað með Sádí Arabíu? Hvað með Bandaríkin þar sem menn fá að drepast ofan í klofin á sér umvörpum vegna vanrækslu stjórnarinnar? Hvað með talebanísku sértrúarþorpin í Bandaríkjunum þar þar sem allir vita að mannréttindi eru fótum troðin? Það er meira að segja búið að gera bandaríska fréttaþætti um þá í lange baner. Og er í ljósi alls þessa virkilega einhver svo skyni skroppinn að halda að Bandaríkjamenn séu að slátra Írökum með mannréttindasjónarmið að leiðarljósi?

Og er einhver að kaupa það að við séum á lista hinna sauðheimsku og viljugu af sömu ástæðu? Nei, við erum þar vegna þess að við erum hérna með hersetið land. Og við þurfum að halda áfram að sleikja bandaríska rassa á meðan við viljum hafa vinnu fyrir Suðurnesjamenn og nærsveitunga og alþjóðaflugvöll.

Allt þetta vita allir, og það fer í pirrurnar á mér að forsætisráðherrarnir mínir, núna tveir í röð, skuli ekki bera meiri virðingu fyrir heilabúum landsmanna en svo að þeir skuli reyna statt og stöðugt að ljúga einhverju öðru.

En, staðreyndin er sú að í ákveðnum málefnum er ríkisstjórnin okkar leppstjórn. Við höfum aldrei verið sjálfstætt ríki, þó við viljum halda öðru fram á 17. júní. Sorrí gæs, frelsishetjurnar góðu störfuðu til einskis í sexhundruð sumur og gengu til einskis götuna fram eftir veg. Það er bara þannig. Daginn eftir lýðræðistökuna, eða jafnvel fyrr, seldum við landið. Reyndar bara fyrir nokkuð gott verð. Eða vildu menn kannski heldur búa enn í torfkofum og vera kotbændur?

Þjóðarhreyfingin verður sumsé að gera sér grein fyrir því hvað það gæti hugsanlega kostað okkur að fara af þessum ágæta lista. Eru menn til í að fara alltaf á báti til útlanda?

Engin ummæli: