7.1.05

Ég sé svolítið eftir horfna kommentakerfinu mínu. Þar var talsvert af fyndi, einhverjar stökur eftir Sævar og fleiri sem ég vildi að ég hefði haft vit á að halda til haga. Og vissi svosem að ég hefði átt að gera, á sínum tíma, en var náttúrulega ekki búin að, áður en 2005 vandinn tók völdin. En, þetta innbyggða ætti nú að duga betur, vonandi.

Annars, veit ekki hvernig þetta ár ætlar eiginlega að verða, áramótin rétt horfin fyrir hornið og strax búin vika. Líklega rétt að ákveða strax hvað maður ætlar að gera á þessu ári, áður en það verður búið.

Ég ætla til dæmis að fara í klippingu. Alveg ákveðin í því. Og setja í þvottavél. Og reyna að útrýma rússneskum ljósakrónum af heimili mínu.

Er annars hálfsofandi í dag. Alls ekki tilbúin til að snúa sólarhringnum rétt og fara að lifa eðlilegu lífi eftir allt þetta jól. Rannsóknarskipið er horfið norður yfir heiðar. Nú þarf ég sjálf að vaska upp heima hjá mér og hef engan til að stjana við mig. Held það geti verið að ég sé svolítið ofdekruð eftir þessi jól. Ætla að eyða helginni hálfsofandi, enda er í mér einhver lurða, og ímynda mér að ég búi enn við stjanþjónustu.

Engin ummæli: