Vesalings bloggið mitt hefur fallið í vanhirðu og ákveðið að losa sig við kommentakerfið í mótmælaskyni. Ekki veit ég hverju sætir en setti inn svona "innbyggt" í staðinn.
Hér kemur allavega áramótauppgjörið, seint og um síðir.
Áramótasamantekt.
Um síðustu áramót bulluðum við pabbi minn upp spádómi um að þetta yrði líklega frakar leiðnlegt ár. Tilbreytingalítið og flatt. Enda 2004 slétt tala og gott ef ekki er hægt að taka kvaðratrót af henni líka. Í tilefni þess verður áramótapistill þessa árs í þurrprumpulegu skýrsluformi.
Búsetur: 3.
- Á Egilsstöðum í 1 og hálfan dag.
- Hjá Ástu í 10 og hálfan mánuð.
- Í eigin fínerísíbúð í 1 og hálfan mánuð.
Eiginmannsefni: 2.
- Ágætismaðurinn sem kom mér í kynni við al-anon en nennti mér svo ekki lengur. Þakka honum samstarfið.
- Indælisdásemdarmaðurinn sem er ekkert hræddur við skuldbindingar. Býð hann velkominn til starfa og vina að hann geri mér þá gleði að þiggja æviráðningu þegar fram líða stundir.
Vinnur: 1 gegnumgangandi og nokkrar lausbeislaðar.
- Bandalagið, allt árið.
- Smá þýðingar hjá Philip.
- 2 útvarpsþættir á Rás 1
- Prófarkalestur hjá DV á tímabili.
Leikhúsdót, margt:
- Lék konu blinda hnífakastarans í Sirkus hjá Hugleik í vor. Í flottasta búningi ever.
- Einn einþáttungur eftir mig frumsýndur á einþáttungahátíð á Húsabakka í vor. Innihélt m.a. þrjár hoppirólur fyrir fullorðna og upphafssetninguna "Djöfull er ég búin að skíta á mig núna..." sem varð líka fyrsta setning sem áðurnefndur blindur hnífakastari fékk að láta út úr sér hjá Hugleik. Spes.
- Lék lesbískan fatahönnuð hjá Leikfélagi Hafnarfjarðar í haust. Kynntist lesbíska fatahönnuðinum í sjálfri mér.
- Tók þátt í þróunarvinnu ofurverksins Memento Mori með Hugleik og leikfélagi Kópavogs í beinu framhaldi. Gerði lítið og fátt, sem gerði það að verkum að sýningin sú varð hin mesta snilld.
- Skrifaði einþáttunginn "Gegnumtrekkur" upp eftir ömmu minni fyrir Westan sem ég gaf henni á áttræðisafmæli hennar.
Gráður 1:
- Varð Meistari í Bókmenntafræðum! Loxinsloxins! Það breytti engu!
Utanlandsferðir 3: Vegabréfið í endurgildingu í maí.
- Hálfsmánaðar námskeið í leikritun í Allihies á Írlandi í júní. Stórskemmtilegt. Þar þróaðist t.d. framburðurinn á enskunni minni í enn fleiri áttir. Var fyrir einhvern veginn ensk-skoskur. Var eftir hálfan mánuð á Írlandi með eintómum könum orðinn... athygliverður.
- Leiklistarhátíð í Eistlandi í ágúst. Hrein dásemd. Hugleikur synti í maukinu. Það var hlýtt og notalegt og ég keypti mér fagran kjól.
- Skrifstofumót NAR í Færeyjum í október. Komst að því að ég get talað skandinavísku eins og vindurinn. (Til að byrja með kom reyndar allt út á frönsku, mér til mikillar furðu þar sem ég hélt ég hefði aldrei náð neinum almennilegum tökum á því tungumáli.) Segir sennilega sitt um að mér er auðveldara að tala en að halda mér saman, sama á hvaða tungumáli.
Almenn kátína: Nánast stanslaus.
Sem sagt, ef þetta var viðburðalítið ár þá vil ég eiginlega ekki vita hvernig þau viðburðameiri verða. 2005 er t.d. oddatala og ætti þess vegna að verða mikið um sviptingar. Ég verð nú samt eiginlega bara syfjuð við tilhuxunina. Sviptingar eru ágætar út af fyrir sig, en ég held þetta hafi kannski eitthvað með aldurinn að gera. Hérna megin við þrítugt er ég allavega alveg til í að sviptingar haldi sig í lágmarki og að engar fleiri u-beygjur verði teknar á næstunni.
Er alveg til í að sitja sem mest fyrir framan sjónvarpið, prjóna og geispa á ári komanda.
5.1.05
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Upplýstu nú hvernig maður býr til þrettánda mánuðinn í árið? Ekki veitti nú af.
Skrifa ummæli