3.10.05

Mikil synd

hvernig maður er farinn að fara með helgarnar sínar í seinni tíð. Eyddi minn í að þýða aukaefni dauðans, reyndar fyrir ágætis péning. Sem er eins gott vegna þess að áðan tók ég mjög rækilegt neyslulán. Flokkast reyndar undir hagræðingu, þar sem það var tekið til að borga upp sýndaryfirdrátt sem ég var næstum búin að taka... Semsagt, endurfjármögnun á fyrirsjáanlegri eignatilfærslu... eða eitthvað.

Enn eitt stórt skref hefur verið tekið í átt til foreldrunar. Við hjónleys pöntuðum pláss á foreldrunarnámskeiði. Vegna þess að það, eins og svo margt annað, er alveg bráðnauðsynlegt svo maður viti nú hvað snýr upp eða niður á óléttunni eða krakkanum. (Ókei, ég er aðallega að þessu út af fyndnu sögunni hann Björns M.)

Allavega, í boði var annars vegar 3 skipti og hins vegar 6. Tímasetning er ekki fyrr en eftir frumsýningu Jólaævintýris þannig að ég sagðist hafa allan heimsins tíma og tjáði Rannsóknarskipinu að hann réði bara hverju hann tímdi af tíma. Og þar með kom auðvitað tilsvar:

R: Ég yrði nú lélegur faðir ef ég tímdi ekki 6 x 2 klukkutímum...

Ég var ekki búin að huxa forgangsröðina svona og fannst hreint ekki að því að vera að nenna ekki að læra undir fæðingu fyrr en eftir frumsýningu... Held það sé alveg á hreinu hver er og verður Aðalforeldrið á þessu heimili. Og það finnst mér snilld.

Og talandi um snilld. Í kvöld fáum við að heyra enn eina snilldartónsmíðina eftir snillinginn Snæbjörn á Jólaævintýrisæfingu! (Já, og líklega fá menn að vita hvað þeir eiga að leika. Asnalegt að vera hérna megin borðsins með það.)

Engin ummæli: