13.11.05

Ætem!

Eitt af því fyrsta sem við Varríus bárum ábyrgð á í sameiningu var fyrirbæri sem hlaut hið skemmtilega heiti "ætemið". Var það mikið teygjubelti með frönskum rennilás sem við brúkuðum til að binda upp um okkur aðra löppina, en svo bar við í þessu fyrsta leikriti sem við stunduðum saman, að við vorum bæði einfætt, á sitthvorum tímapunkti í verkinu samt. Apparat þetta var fengið einhvers staðar í heilbriðgðistkerfinu, og eflaust ætlað til einhverra annarra nota, enda spáði hún Hulda ekki vel fyrir þessari misnotkun. Vildi meina að um fimmtu sýningu myndum við bæði missa lappirnar, þ.e.a.s. þær uppbundnu, um hné.

Tilvist þessarar græju var ég síðan búin að gleyma.

Þangað til ég eignaðist ekki ósvipað tæki í dag. Nema hvað nú brúkast það til að halda upp um mig ístrunni, og mjöðmunum saman til þess að ég detti nú ekki niður um klofið á mér. Enda væri það nottlega frekar agalegt, svona í vikunni fyrir frumsýningu. Sem sagt, hef eignast mitt eigið Ætemildi, og er trúlega að brúka það á réttari hátt en síðast!

Annars er heilsan að skríða saman, en við tekin mikið geðsýkisvika. Hin hefðbundna síðasta vika fyrir frumsýningu. Áðan var ég viðstödd gegnumrennsli í Tjarnarbíó. Það var hreint ekki leiðinlegt, þó svo að nokkur fengi maður kvíðaköstin yfir því sem er eftir, eins og gengur. En þetta lofar bara góðu... held ég.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Pah... mér finnst ég nú bara ekkert síður þurfa á slíku "ætemi" að halda EFTIR barneignir, einmitt til að maginn detti ekki niðrúr klofinu á mér......

Nafnlaus sagði...

Ég nota eyrnaband til að heilinn leki út. Fyrirtaks ætem þar á ferð.

Nafnlaus sagði...

"ekki út" vildi ég sagt hafa

helvítis eyrnabandið virkaði þá ekki eftir allt saman