26.10.06

Glæta...

Viðskiptabanki Rannsóknarskips virðist öllu liðlegri en minn. Virðist allavega vera til í að lána okkur þennan péning ef við stöndumst greiðslumat. Og það ætlum við að reyna að gera í dag. Búin að vera að finna hvern einasta bleðil sem getur litið út eins og tekjur. Og grafa upp allar vel földu milljónirnar. Þetta er soldið eins og fjársjóðsleit.

Annars tókst mér nú að nurla mínum viðskiptabanka aðeins upp í gær, en ekki nógu hátt. Svo rölti Rannsóknarskip sér nú bara niðrí bæ og talaði við aðstoðarútibústjórann. Og hann var nú bara ekkert nema elskulegheitin. En til öryggis erum við nú samt komin með plan b.

Í öðrum óspurðum fréttum er það helst að í gær var gert mikið átak hér á skrifstofunni minni og um tonni af drasli úr geymslunni hent á haugana. Í áframhaldandi hreingerningaræði er ég að taka útstillingargluggann okkar í gegn í dag.

Er að fara að sjá Purpura eftir Fosse í Verinu í kvöld, í hlutverki gagnrýnanda Leiklistarvefjarins. (Það er hvortsemer ekkert í sjónvarpinu og Rannsóknarskip þarf að þýða eins og vindurinn.) Langt síðan ég hef rýnt eitthvað. Ætti nú að gera meira af því. Það er nefnilega svo gaman.

Og, leitin að dularfullu atferlismeðferðarkonunum heldur áfram. Læknirinn minn reyndist hafa hringt í þær. En þegar ég ætlaði að hringja í hann í gærmorgun var hann nú kominn í frí fram að jólum eða þar um bil. Í staðinn fékk ég að tala við annan lækni sem er frændi minn. Það gekk að sjálfsögðu betur. Hann gat leitt mig í allan sannleikann um stöðu mála. Atferliskonurnar eiga semsagt að hringja í mig. Og ég gat hringt í þær, sagði hann, en hvar eða í hvaða númer virtist vera hernaðarleyndarmál. Tóxt lox að grafa upp númerið eftir afar flókið hlerunar- og njósnaferli. Það svarar ekki þar. Fékk líka netfang. Það virkar ekki.

Að ætla að afla sér meðferðar gegn þunglyndi, utan pilla, er sem sagt ekki aldeilis heiglum hent. Ef minn sjúkdómur væri á alvarlegra stigi væri ég líklega búin að kála mér svona tíu sinnum, bara undanfarna daga.

Svona er nú skilvirkni heilbrigðiskerfisins okkar.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hefurðu nokkuð lesið Læknamafíuna?
Agnes

Sigga Lára sagði...

Jú, ein af fáum bókum sem ég hef fengið margra mínútna hláturskast yfir...