30.9.07

Allskonar

Best að byrja á að plögga, áður en ég gleymi því. Næsta laugardag heldur Bandalag íslenskra leikfélaga stuttverkahátíðina Margt smátt í Borgarleikhúsinu. Þetta stefnir í að verða fjölskylduhátíð, Smábáturinn leikur, Rannsóknarskipið höfundar, leikstýrir (öðru) og leikur huxanlega (í enn öðru) og svo kemur Rannsóknarskipssystir að norðan og leikur líka. í alltalltöðru. Við Freigáta verðum hins vegar fjarri öllu þessu góða gamni, ég þarf að vera í þýðingafræðimaraþoni í skólanum og hún verður í pössun hjá Huggu móðu. Það verður nú skrítið að koma ekki einu sinni bara neitt nálægt þessu, en ég verð nú kannski bara að læra að lifa með því í bili að Bandalagið og Hugleikurinn komist nú bara alveg af án mín. Hafa gert það áður, og þurfa sennilegast að gera það í bili.

Ég þarf þvílíkt að taka mig á í skólamálunum eftir alla þessa veiki. Annars erum við Rannsóknarskip og Freigáta öll ennþá með hellings hor, hósta og sleppu, þó við eigum að heita vera orðin hraust. En þetta virðist ætla að taka tíma sinn að fara alveg. Smábáturinn er hins vegar fílhraustur, utan þess að hann fann engan til að leika við núna seinnipartinn, að aflokinni leikæfingu. Er nú samt að bíða eftir að einhver skilaboð skili sér, en þangað til "neyðist" hann bara til að hanga í tölvunni, eins og hann sagði sjálfur með uppgerðum mæðusvip. Ég huxa að ég láti það nú afskiptalaust í bili. Hann er búinn að vera svo hroðalega duglegur í dag, búinn að æfa leikrit og píanóleik og allt mögulegt, og svo hjóla heim til 12 manns til að gá hvort einhver sé heima hjá sér og geti leikið. En þetta getur nottla ekkert leikið. ;-)

Freigátan er auðvitað búin að krækja sér í nokkra ósiði á leikskólanum sínum. Það nýjasta er að lemja. Hún prófar það stundum á okkur, og fær einstaklega fúlar undirtektir, sem henni finnst fyndið. Svo lemur hún stundum sjálfa sig og dótið sitt. En ég held hún lemji ekki önnur börn. Ennþá. Ef hún heldur svona áfram fer ég að huxa mér með hana í glímuferð til Bolungarvíkur þar sem hún getur hitt þann heitmann sinn sem er, að mér skilst á móður hans, líka ofbeldishneigður.

Annars eru nú nokkrir í sigtinu. Einn þeirra er sonur Ásdísar sem er í bumbusundinu með mér í annað sinn. Síðast átti hún son um mánuði áður en ég átti Gyðu. Núna er hún sett mánuði á eftir mér. Og hún sagði mér um daginn að nú væri ég með strákabumbu. Hún er svo mikið hærri en síðast. Hún er hins vegar með stelpubumbu í þetta skipti. Þannig að kannski erum við búnar að leggja grunninn að tvöföldum mægðum.

Ég er annars eiginlega ekki búin að þyngjast neitt í þessari óléttu, en talsvert farin að breyta um lögun. Sem er gott. Ég ætla helst ekki að verða hundrað kíló. Og mátti alveg brúka dáldið af forðanum. En það er dáldið farið að grisjast í fataskápnum af því sem nær niðurfyrir bumbu. Og það tefur stundum dáldið fyrir mér á morgnana vegna þess að þegar ég vakna er ég stundum komin með hálfan hugann í skólann eða eitthvað og man ekki baun að ég er ólétt... þangað til bumban stendur allt í einu út úr öllum fötunum sem ég er í.

Í nótt dreymdi mig að ég ól sveinbarn, strákurinn var svakalega langur, 60 cm held ég, og voða sætur og skemmtilegur. En eiginlega ekki líkur neinum. Annars get ég einhvern veginn ekki ímyndað mér að eignast strák... Ég á reyndar Smábátinn, en eignaðist hann nú bara þegar hann var níu ára, þannig að hann hefur einhvern veginn alltaf verið stóri strákurinn minn. (Hann fær reyndar alveg að vera lítill þegar hann þarf, en það gerist sjaldnar og sjaldnar.) Og svo á ég Freigátuna, og hún er stelpa eins og ég. Ekki að ég reikni með að mikill munur sé á stelpu- og stráksmábörnum, en ég á erfitt með að ímynda mér það. Alveg eins og Rannsóknarskip gat ekki ímyndað sér hvernig væri að eiga stelpu, fyrr en það gerðist, honum algjörlega að óvörum. Hann var sannfærður um að Freigátan yrði strákur.

Þess vegna var það, daginn eftir að hún fæddist, að hann fór að furða sig á því að hann væri orðinn stelpupabbi. Honum fannst það undarleg tilfinning. Ég fór eitthvað að stríða honum á því hvernig honum yrði svo við þegar hún færi að koma heim með kærastana sína, (leðurklædda og reykingalyktandi með sakaskrá)?
Rannsóknarskip fölnaði og sagði svo: Hún fær ekkert að eiga neina kærasta!
Hann hefur aldrei bakkað með þetta.

Ég held að fátt sé karlmönnum hollara en að eignast dætur.

Þetta er nú orðið meira bullið.
Best að hætta þessari vítleysu og hunzkast til að reyna að þykjast gera eitthvað í einhverju.

1 ummæli:

Elísabet Katrín sagði...

Já, þetta með kynin er kynlegt ;) ég veit ekkert hvernig á að fara með stelpur, yrði örugglega ómöguleg stelpu-mamma! Já og get bætti einni á óléttu listann þinn.....Kristján er að fara að eignast bróðir á næsta ári ;)