1.10.07

Dyggasti lesandinn

Einu sinni fór ég stundum í fýlu við bloggið mitt. Huxaði jafnvel um að hætta með það. Það var þegar mér fannst lítil hreyfing á kommentakerfinu. En þeir dagar eru nú satt að segja að baki. Eftir því sem bloggárunum fjölgar verð ég nefnilega sjálf dyggari aðdáandi bloggsins míns. Ég tek stundum upp á því, þegar ég þarf nauðsynlega að finna mér afsakanir fyrir að gera ekkert af viti, að lesa bloggið mitt aftur í tímann. Les þá gjarnan hvað var að gerast fyrir akkúrat ári síðan, tveimur, þremur, og nú undanfarið get ég farið heil fjögur ár aftur í tímann og skoðað hvað var að brjótast um í hausnum á mér.

Þetta er svo sem ekkert til að skoða merkilegu viðburðina. Maður man þá nú svona nokkurn veginn. En það eru ómerkilegu viðburðirnir sem mér finnst oft skemmtilegt að geta rifjað upp. Og svo getur þetta verið gagnlegt þegar sögur endurtaka sig. Núna hef ég til dæmis verið að skoða hvað var í gangi um svipað leyti á síðustu óléttu. (Og komast að því mér til mikillar gleði að þá var ég komin með miklu meiri grindverk en nú.) Það er líka að finna ýmsar uppástungur að nöfnum, sem ekki er nú ónýtt að fara að grafa upp núna. Daníel Gabríel, Vanilla Blær og Heljarslóð Orrusta eru öll algjörlega í stíl við það sem ég er að sjá á leikskóla Freigátunnar.

Ég hef aldrei nennt að halda dagbók af neinu viti. (Þangað til ég stofnaði Orðabókina.) En núna vildi ég eiginlega óska að ég hefði gert það. Ég hefði gjarnan viljað sjá þankagang minn, til dæmis þegar ég var í menntaskóla. (Man reyndar að einu sinni settumst við Svandís niður og skráðum nákvæmlega hvað hefði gerst um hverja helgi undanfarið, lesist; hvað við hefðum drukkið og hver hefði sofið hjá hverjum. Eins man ég að skóladagbækurnar mínar úr menntaskóla gátu falið í sér skemmtilegar vísanir... en ég er ekki frá því að ég hafi hent þeim í síðustu flutningum. Eins var einu sinni til eitthvað sem hét Góða bókin, sem var gjarnan ort í á góðum stundum. Veit heldur ekki um hana. Allavega eins gott að henni verði nú fargað áður en hætta fer að verða á þvi að börnin komist í hana. ;-)
Allavega, ef siðmenningin liði nú undir lok, bráðum, rafmagnið og internetið hætti að virka, eða eitthvað, þá huxa ég að ég myndi reyna að halda áfram að skrifa niður daglega hugþjöppun, bara á pappír, ef ekki vill betur.

En auðvitað hefur umferðin og lesturinn minnkað. Eins og gengur. Nýjabrumið er ekki lengur á bloggum heimsins, auk þess sem ég hef sjálf öll mýkst og afkjaftforast með aldrinum. Ég skil vel að minna sé nú spennandi að lesa um hor heldur en pirring yfir þjóðfélaginu og heimsmálunum. Nú er ég bara svo upptekin af horinu og sjálfri mér að ég hef takmarkaðan tíma fyrir huxjónirnar. Hafa verður það. Einu sinni bað ég alla að kommenta, bara til að gá hvað kæmu margir. Það var alveg haugur. Það er líka oft skemmtilegt að lesa kommentin, sérstaklega þegar menn fara á flug, langhunda og stunda bloggrán.

En ég ætla ekkert að vera að biðja menn að "kvitta". Ég les gífurlegan haug af bloggum á hverjum degi og kvitta aldrei nema ég þurfi að segja eitthvað. Ég veit að það eru líklega einhverjir þarna úti sem lesa, þegar þeir mega vera að. Annars er aldrei að vita nema framtíðarsjálf mitt eigi eftir að flissa að þessu á komandi áratugum. Og það er nú gaman.

Þetta var sumsé hinn narsissíski lofsöngur sjálfrar mín til bloggsins míns.

Góðar stundir.

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sem minnir mig á það að ég er lengi búinn að vera á leiðinni að útbúa mér pappírskópíu af eigin vefrænum dagbókarvísi - svona ef siðmenningin skyldi líða undir lok og/eða internetið endanlega sligast undan klámvæðingunni (sem ég hef heyrt svo mikið um).

Svo má ekki gleyma teprinsessunafninu Jasmín Kamilla.

Sigga Lára sagði...

Já, mig langar einmitt að gera það líka. Og setja allt í mismunandi litar möppur og merkja eftir árum. Held það færi mjög vel á skrifstofunni.

Berglind Rós sagði...

Sigga Lára ég neita að trúa því að Góða bókin sé týnd!

Sigga Lára sagði...

Ja, ég huxa að hún sé svona... hæfilega týnd.

Nafnlaus sagði...

Gvöööð, hver drakk hvað og hver var með hverjum.... tíhí!
Ég les hverja einustu færslu en kommenta sjaldan. Þetta er bara snilldin ein.

Nafnlaus sagði...

Hmm, ertu ekki með statcounter? Sérðu ekki hvaðan traffíkin kemur? Ég les stundum reyndar nokkrar færslur hjá þér í röð en ég held svei mér þá að ég hafi ekki misst úr í a.m.k. heilt ár. Og auðvitað hefur þetta allt praktíska gildið í heiminum fyrir mann sjálfan. Gott að þér hefur snúist hugur, segi bara það.

Góðar stundir ...
Berglind Steins