28.10.07

Ýmis undur og misstórmerki

Í gær lyfti Rannsóknarskip grettistaki. Honum tóxt að draga mig út eftir kvöldmat. Hugga móða kom og passaði og við skruppum á þýska gestasýningu í Borgarleikhúsinu sem hét Endstation America. Það var lærdómsríkt. Ég fattaði að:
- Ég sé næstum aldrei neitt þessi árin nema sýningar Hugleix, sýningar eftir sjálfa mig og erlendar gestasýningar.
- Það er alltaf meira og minna sama fólkið sem sækir erlendar gestasýningar. Slatti af Hugleik og nokkrir aðrir leikhúsnörrar. (Eins og Tinna Gunnlaux og sollis.)
- Stundum borgar sig ekki að sitja beint fyrir framan baðherbergisdyrnar, séu slíkar á sviðinu.

Þessi sýning var alveg fyndin. Alveg hægt að klæmast heilmikið á Sporvagninum Girnd á þýsku. Og notkunin á textavélinni var fyndin og mikið í stíl vioð greinina sem ég er að fara að vinna fyrirlestur og ritgerð uppúr í þýðingafræði.

Í morgun kom að langþráðri stund hjá Freigátunni. Hún fékk að fara út. Við dúðuðum okkur þangað til við litum út eins og tvær jólakúlur og fórum svo út á næsta leikvöll og tókum þvílík tilþrif í fótboltanum að Siffi móbró hefði orðið stoltur af. Svo fórum við í lannnnga gönguferð og ég velti fyrir mér hvort fólkið sem á gamla og ónýta einbýlishúsið á Unnarstíg sem upphaflega voru settar á 82 milljónir en er búið að vera á sölu í meira en ár, fari ekki alveg að verða til í að skipta við okkur á sléttu. Verst að ég veit ekki alveg hvort við erum nógu smíðin til að nenna að kaupa ónýtt hús sem þarf að skipta um allt í, að innan sem utan. Ég huxa að það séu nú alveg skiljanlegar ástæður fyrir því að þetta fína hús stendur alltaf tómt með gulnuð TIL SÖLU skilti í gluggunum.

Feðgar ætla að fara að baka fyrir kökubasar í kirkjunni (þetta hljómar nú eins og upp úr einhverri nútímaútgáfu af Húsið á sléttunni) og Móðurskipið þarf að klára ógurlega merkilega leikritsþýðingu og skýringar með henni fyrir morgundaginn.

Þannig ætlar nú sunnudagurinn að leggja sig.

6 ummæli:

Sigurvin sagði...

Ég sé tilþrifin ykkar Gyðu fyrir mér ljóslifandi. Ég verð síðan að taka smá syrpu með henni einhverntíma svo hún fái örugglega fótboltabakteríuna :)

Árni Friðriksson sagði...

Sigurvin, Gyða horfði náttúrúlega á Liverpool-Arsenal í dag. Og henni fannst mun skemmtilegra þegar Liverpool skoraði!

Nafnlaus sagði...

Déskoti fannst mér sýning þýskaranna lítið spennandi, algjört PBS. Fyrir utan örfá "sniðug" móment sem leikurunum n.b. fannst greinilega sjálfum svo sniðugt hjá sér að þeir gátu ekki hamið flissið í sér. Sýning sem hendir í mig glerbrotum og þvottadufti og sprautar á mig vatni ... æi, getiði ekki bara verið úti að leik´ykkur - helst heima hjá ykkur. Það truflaði mig strax í byrjun að leikarar gátu ekki farið rétt með textann í "Perfect Day". Allt í lagi að snúa út úr honum og jafnvel að setja leiktexta passandi inn í hann - EN til þess að svoleiðis virki vel þarf að finnast að flytjandinn þekki grunntextann, og það gerðu þau ekki. Og því miður varð þessi upphafstónn að undirtóni sýningarinnar, þ.e. sjúsk og tilgerð. Ég vil láta hreyfa við mér í leikhúsi og þá er ekki nóg að brjóta bara nógu marga diska og velta leiksviðinu til að segja mér að líf einhvers sé í rúst og að heimurinn sé að farast. Jeræt!

Gummi Erlings sagði...

Jón Viðar er líka svaka hress með sýninguna, fer í rokna stuð í dv í dag (http://dv.is/frettaauki/lesa/2005). Maður var eiginlega farinn að sakna kallsins...

Nafnlaus sagði...

Jón Atli Jónasson sagði eitthvað á þá leið í útvarpinu áðan (ef ég skildi hann rétt), að neikvæðu viðbrögðin við sýningunni væru vegna skorts á skilningi, að þegar fólk skilur ekki eitthvað þá verði það reitt og neikvætt. Það var og. Þegar mér mislíkar eitthvað þá er það sem sagt eingöngu merki um að ég sé fordómafull. Ætli leikskáldinu finnist sem sagt allt gott sem hann telur sig hafa skilið?

Sigurvin sagði...

Árni, það hefur nú örugglega bara verið út af því hvernig þú lést :)