2.11.07

Hillingar

Eyðilagði algjörlega fyrsta dag vetrarfrís Rannsóknarskips með því að pína hann til að eyða honum í IKEA. Út úr því höfðum við reyndar þessar ljómandi fínu hillur á ganginn, sem ná til himins og eiga að geta innihaldið allt bókasafn heimilisins, eða þar um bil. Í sárabætur fyrir að þurfa að eyða helginni í að byggja þær fær hann að sofa í allan dag.

Sjálf kom ég Freigátunni á leikskólann, en hún er að slá met í dag. Þetta er fyrsta heila vikan sem hún er á leikskólanum, alla, algjörlega án veikindafrís. Það er nóvember. Hún byrjaði á leikskóla í ágúst.

Ég fer alveg að þurfa að horfast í augu við að ég er að verða of ólétt til að vinna verkefni í Bókhlöðunni. Er búin að eyða klukkutíma í að vaða ég upp og ofan stiga til að viða að mér gögnum í ponkulítið verkefni sem gildir 3% af Ritstjórninni og Hræðilegu skrifunum. Komin með bæði grindverk og samdrætti og er mest að spekúlera í hvar er best að fæða í Þjóðarbókhlöðunni.

En nú er ég komin með þetta alltsaman og búin að hlamma mér fyrir framan tölvu, alveg tilbúin að byrja einhvern ógurlegan samanburð á greinum og ritgerðum, og hverju byrjar maður á? Jú, blogga eins og fáviti. Um ekki neitt. Merkilegur andsk...

Var annars að fá tölvupóst þess efnis að mér hefði algjörlega láðst og yfirsést að borga skráningargjaldið í háskólann. Ef ég geri það ekki undireins þá verður mér fleygt beina leið út. Jæja, fór aldrei svo að maður hefði ekki eitthvað að gera við barnabæturnar. Rannsóknarskip eyddi sínum í hillur.
Ætla allavega að borga þetta á eftir.
Og fara svo í búð.
Og síðan bumbusund.
Verð að fara að byrja á þessu fj... verkefni.
Grrrrr.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Haha, talandi um barnshafandi konur í bókhlöðunni, hefur þú líka tekið eftir því að bækurnar sem mann vantar eru ALLTAF í allra neðstu hillunni? Svoo gaman að skríða þarna eftir gólfinu eins og hvalur á þurru landi.

Nafnlaus sagði...

LOL lýsingarnar eru meiriháttar.. er búin að liggja hér í hláturskasti yfir þessum pistlum þínum... bjargaðir algerlega deginum fyrir mér hehehehehehehe :o)
Gangi þér vel að finna "hreiður" í Bókhlöðunni hehehehehe :o)