16.10.08

Eitt og annað

Ég eignaðist barn í nótt. Annan strák sem var alveg eins og Hraðbáturinn, nema með heilmikið og hvítt hár. Fæðingin gekk hreint undravel fyrir sig en Rannsóknarskip missti af henni þar sem hans var enn saknað eftir fyllerí kvöldsins áður. En ég hafði nákvæmlega engar áhyggjur af því. Huxaði bara sem svo að hann myndi skila sér fyrr eða síðar, enda var ótrúlegasta fólk saman komið til að hjálpa mér og aðstoða í kringum þetta allt saman.

Fyrir hverju ætli svona draumur sé? Snjóþungum vetri? Þetta var allavega "sveinbarn sé og sjálfur eigi" svo líklega er þetta ekki endilega fyrir "böli."

Annars er mögnuð lífsreynsla að þramma framhjá Svörtuloftum og höfuðstöðvum Kaupþings í kulda og rigningu með tónlist snillinga í ípottinum. Fyrir tilstilli örlagavalda randomsins voru þeir bræður Cave og Cobain áberandi í eyrnakonfekti morgunsins. Rigning, Seðlabankinn, drungi og grunge. Ég æfði mig í að fíla kreppuna á leiðinni í jóga og ungbarnasund.

Freigátan var á leikskólanum í fullan leikskóladag í dag. Fyrir utan að hún borðaði ekkert í hádeginu og svaf ekkert í hvíldinni var hún víst alveg eins og engill.

Og Dr. Gunni er góður aftan á Fréttablaðinu í dag. Ýmislegt hef ég nú lesið sem ég er sammála og þá ekki síst undanfarna daga en þarna var nú bara næstum liðið yfir mig af sammáli.

Smábátur rúllaði upp einu samræmdu prófi í morgun og gerir væntanlega slíkt hið sama á morgun. Annað kvöld heldur hann síðan norður yfir heiðar og verður í heila viku þar sem nú fara í hönd starfsdagar og vetrarfrí í skólanum hans. Rannsóknarskip er líka kannski að fara í partí annað kvöld en ætlar vonandi ekki að drekka sig týndan fram að næstu barneign.

5 ummæli:

Þórunn Gréta sagði...

Í gamla daga sagði fólk: Böl er ef barn dreymir nema sveinbarn sé og sjálfur eigi. Þetta var sveinbarn og þú áttir það sjálf: Gæfa. Eða a.m.k. ekki böl. Spurning með fyllerí Rannsóknarskips.En áhyggjuleysi þitt er af hinu góða hygg ek.

Þórunn Gréta sagði...

Hahahaha! Ég sé það núna að ég lesblindaðist yfir klausuna þar sem þú ræður drauminn þinn sjálf! Biðst innilega forláts!!

Sigga Lára sagði...

Já. En vandamálið við þetta orðatiltæki er að það segir bara að sveinbörn sem maður á sjálfur séu ekki fyrir böli. En fyrir hverju kemur ekki fram... Það þarf að hringja í þann sem fattaði uppá honum þessum.

Nafnlaus sagði...

Fór í sónar á miðvikudaginn en nóttina áður dreymdi mig að Orri frændi hafi mætt sposkur fyrir hönd stórfjölskyldunnar... Hvað á það að þýða?

Sigga Lára sagði...

Hmmm. Góð spurning...

Enn betri spurning. Ertu ólétt?
Maður er greinilega ekkert að fylgjast með...

Orri frændi? Sennilega gengur þú með mjög sérvitran dreng innanborðs. ;-)