17.10.08

Viðskiptafræði

Ég meikaði allt góðærið án þess að langa baun til að skilja í þessu banka- viðskipta- verðbréfa- nasstakk- bulli. Mér þóttu bara gengis- og verðbréfafréttirnar fyrir fréttir á Stöð 2 og í lok tíufréttanna á RÚV vera svo átakanlega leiðinlegar að ég var oft næstum dáin við að þrauka það. En núna er ekki laust við að mig langi stundum til að botna pínulítið í því hvað er að gerast. Sérstaklega þar sem menn virðast hreint ekki sammála um það. Erum við í skítnum? Er hann djúpur? Er betra að taka lán hjá Rússum eða Alþjóðagjaldeyrissjóðnum? Eða einhverjum allt öðrum? En á einhver peninga? Eftir það sem á undan er gengið er ég farin að halda að allir þessir peningar sem verið sér að veifa til okkar séu lúftpeningar.

Og ég heyrði því fleygt að "gatið" sé uppá 10 milljarða dollara. Ókei. En hvað varð um þá? Voru þeir aldrei til? Hvernig var hægt að byggja útrásarkjaftæðið á peningum sem aldrei voru til? Hefði ekki einhver viðskiptafræði- hagkerfismógúll átt að koma auga á það?

Reyndar er eins og mig minni að margir hafi verið með bölmóð og hrakspár í góðæringu. En þar sem þessi líka stólpakláru stjórnvöld og gaurarnir sem stjórnuðu bönkunum með 65 milljónir í mánaðarlaun sáu ekki ástæðu til að hlusta á það hélt ég að það væri bara svona svartagall. Í ljós kom þokkalega allt annað.

Og hvað er að gerast núna? Jú, við þurfum að fá einhverja 10 milljarða dala lánaða. Og mér þykja stjórnvöld og kallarnir sem ráða taka því bara nokkuð létt. Ríkukallarnir, seðlabankastjórarnir og forsætisráðherra kenna hver öðrum um og vilja ekki láta leita að sér. Og reyna svo að selja manni þær fréttir að þetta sé nú allt að reddast, á íslenska vísu. "Við tökum bara meiri lán." Á meðan halda áfram að berast fréttir frá kláru köllunum sem spáðu fyrir um þetta allt saman, að hlutirnir séu miklu verri en ennþá sést og að Geir sé enn að fokka upp svo ekki sé minnst á seðlabankann. Þetta er alltsaman borið til baka. Jafnharðan. "Við tökum bara meira lán." Ég get ekki gert af því að ég hef talsverða tilhneygingu til að trúa frekar svartgöllurum. Svona eftir fyrri reynslu.

Annars er ég ánægð með hvað almenningur virðist taka þessu öllu saman af mikilli stillingu. Meira að segja þeir sem eru að tapa miklum peningum, jafnvel öllu sínu, virðiast vera að jafna sig eftir mesta sjokkið. Og enginn virðist velkjast í neinum vafa um að það besta í lífinu sé ókeypis. Auðvitað eru menn ekki farnir að finna fyrir þessu tapi ennþá. Kannski verðum við öll minna kokhraust í 100% verðbólgu, atvinnuleysi og skuldafeni. Það á eftir að koma í ljós.

Ég fagna innilega endalokum góðærisins og því að fá tækifæri til að ala börnin mín upp í kreppu og verðbólgu (eins og ég ólst upp við) frekar en á öld alheimsfrekju. Þó er ekki laust við að talið um Nýja Ísland sé farið að fara örlítið í taugarnar á mér. Verðmætamat virðist allt á leið til aukinnar skynsemi. En þetta er samt eiginlega alveg gjörsamlega farið yfir væmnisþröskuldinn á mér. Allt þetta faðm og hvað ha? Það er ekki einu sinni orðið almennilegt tilefni til hughreystingar. Og menn eru bara strax að tapa sér í smeðjunni? 

Og selfölgeligheda auglýsingarnar á Skjá einum? Þessar sem segja manni það sem maður veit, bara væmnar. Ég veit það ekki. Þær voru kannski hughreystandi í "sjokkinu" í síðustu viku. Svona fyrir þá sem áttu eitthvað til að tapa. Núna eru þær svolítið hallærislegar og kjánahrollvekjandi. Gera ráð fyrir að flestir hafi gjörsamlega tapað raunveruleikatengingunni í skuldasöfnunaræði undanfarinna ára. Vona að menn ætli ekki að bjóða sveltandi lýðnum upp á þessi skilaboð á mánuðum komanda. Þá er ég nú hrædd um að nokkrir flatskjáir verði fyrir fljúgandi furðuhlutum.

Það er nefnilega þannig að þó öld vatnsberans virðist gengin í garð, núna í góðærisleifunum, þá eru miklu meiri líkur á paunki þegar harðnar í ári. Réttlátri reiði og mjög massívri leit að sökudólgum. Sem ég vona, þeirra vegna, að verði búnir að hafa vit á að segja af sér og koma sér í skjól. Helst í útlöndum. Samt ekki Bretlandi.

Og eitt enn. Nú er ljóst að menn þurfa að reyna að spara. Enginn veit hvort einhver fær útborgað um næstu mánaðamót. Og það er ljóst að afborganir af lánunum okkar eru síst að fara að lækka. Né heldur verðlag, almennt. Á sama tíma eru menn hvattir til að kaupa. Annars stöðvast "hjól hagkerfisins."

Ég hef tilhneygingu til að halda mig við nauðþurftirnar í bili og huxa eins og Doktor Gunni að hjól hagkerfisins geti bara hoppað upp í rassgatið á sér.


4 ummæli:

Ásta sagði...

Þegar það hefur gerst að ég hef verið með allt niðrum mig fjárhagslega (hefur sem betur fer ekki gerst oft né í háa herrans tíð) hef ég burgðið á það ráð að fá mér aukavinnu til að rétta skuldafenið að. Stundum er það bara eina leiðin. Held að íslenska ríkið þurfi að fara að bera út Moggann eða hringja fyrir Gallúp - svona metafórískt.

Sigurvin sagði...

Góðærið var náttúrulega að láni.
Varðandi ráðamennina þá hafa þeir alltaf og munu alltaf tala af miklu sjálfsöryggi. Fyrir það borgum við þeim laun. Grunnhyggin þjóð kýs sér ráðamenn með góða og örugga framkomu, ekki endilega bestu dómgreindina. Það fær okkur til að líða vel. Þeir tala okkar mál og við þurfum ekki að hugsa of mikið.

Spunkhildur sagði...

Knús er betra en bús...


Afsakið meðan ég æli

Nafnlaus sagði...

Innmúraður sjálfstæðismaður sem ég þekki vel sagði mér einu sinni að sjálfstæðismenn vildu láta segja sér að stöðugleiki ríkti, alveg sama þótt það væri lygi. Hann vann fyrir frambjóðanda í prófkjöri og ég las yfir einn bæklinginn fyrir hann. Ég fékk bara að laga venjulegar villur, ekki bullið.

Ég gæti í löngu máli tekið undir með þér, Siggalára, en læt nægja að kinka kolli.

-bs