8.12.08

...og svo snúa þau sér í hring!

Á þessum annars horríka degi eru menn þó með hressasta móti og næsta hitalausir. Því er búið að skella "Göngum við í kringum" í spilarann og æfing fyrir jólaball í fullum gangi nú klukkan 10 morgunsins. Freigátukrílið er þó óskaplega föl og eymingjaleg og ekki bætir úr skák að eftir baðlausa helgi er hún komin með voða skítugt hár með horklessum. Mig dreymir þann dagdraum helstan að hún verði hitalaus í kvöld svo hægt verði að baða hana.

Það er svo merkilegt að þó horstreymi Hraðbátsins sé engu minna og hann sé jafnvel búinn að vera með meiri hita þá verður hann aldrei svona náhvítur í framan eins og Freigátan verður. Enda er hann dökkeygari og mig grunar að hann hafi eitthvað meira af vestfirska duggaraútlitinu sem stingur sér víða niður í föðurfjölskyldunni minni, meðan Freigátan virðist hafa sinn húðlit úr albínáahluta Kela móðurafa. En það líður varla sá dagur að einhver spyrji mig ekki hvort Hraðbáturinn borði mikið af gulrótum af því að hann er svo brúnn. En það gerir hann ekki. Og hefur óskaplega lítið komist út fyrir hússins dyr undanfarið vegna heimilishorsins. Og sefur ekki einu sinni úti þegar hann er frískur. Svo hann er greinilega bara svona hraustlegur á litinn frá náttúrunnar hendi.

Í dag er pensillínkúr Hraðbátsins á enda en hann enn með hor. Svo þá er nú best að fara öllu með ítrustu gát og kaupa eyrnadropa í jurtaapótekinu svo við þurfum nú ekki þriðja pennsilínkúrinn í röð fyrir jól. Og helst vil ég fá Freigátuna í lag fyrir sundið á miðvikudaginn, en hún er nú þegar búin að missa helminginn af því í horið. Mikilvægast í heimi er þó að hún verði heilbrigð þann 18. desember. Þá er jólaball á leikskólanum og Rannsóknarskipið þarf að fá sér frí í vinnunni til að fara með Hraðbát í síðasta tímann á sundnámskeiði á meðan Móðurskip er í prófi. Að þeim degi afloknum mega menn bara hora alveg eins og þeim sýnist. Báðir foreldrarnir verða komnir í frí um óákveðinn tíma. Ég er ekki enn búin að fá endanlega staðfest að Forlagið taki við mér í lokaverkefni í janúar. Kannski verður þá bara Rannsóknarskip í fæðingarorlofi og ég á atvinnuleysisbótum. Mikll og svakalegur lúxus verður það nú!

---

2 mínútum eftir að þetta var skrifað fékk ég meil. Í kjölfarið fylgdi símtal. Spennandi fréttir um lokaverkefnisritstjórn. Nú bíð ég bara eftir öðru símtali með öndina í hálsinum. Stei Tjúnd.

Meðan ég vesenaðist í þessu gerði Freigátan fallegt málverk á spegilinn úr eigin hori. Já, Íslendingar eru skapandi fólk.

Engin ummæli: