17.1.09

Spik og smit og myglmundur

20% af fjölskyldunni er í burtu um helgina. Hin 80% eru lasin. 20% gubbuðu í gærkvöldi. Þau eru enn sofandi ásamt 20%unum sem héldu að þau væru að fá í magann en fengu ekki. 40%in sem eru vöknuð eru með einhvern kvebba. Auðvitað varð það ekki órefsað að á heimilinu ríkti almennt heilbrigði í heilar 3 vikur!

Amma-Freigáta sefur varla fyrir kenningum um að myglmundur eigi þarna einhvern hlut að máli. Ráða hefur verið leitað á "hús og heilsa" og svefnherbergisgluggar teknir til bæna. Þvottahúsloft er nokkurn veginn til friðs en þó verður tekið á því þegar húsbóndinn réttir úr kút.

Móðurskip býst nú samt ekki við neinum byltingum í heilsufari í bili. Menn þurfa bara að vaxa úr grasi og hætta að hirða upp allt sem gengur á leikskólanum. Og það ku koma með tímanum.

Og þrátt fyrir eitthvað smákvef þarf Móðurskipið að hreyfa sig eitthvað um helgina. Annars fer það að standa undir nafni með vaxtarlaginu. Eins þægilegt og það er að ganga undir 100 skref í vinnuna veldur það gríðarlegu hreyfingarleysi. Svo kannski maður skreppi og mótmæli í dag, í fegrunarskyni.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég hallast einmitt fremur mikið að kenningunni um að þetta komi með tímanum. Pestir eru ekki alveg endalausar.
Hrafnhildur demplo.