15.1.09

Tony Danza, hvað?

Auðvitað er Rannsóknarskip svona fimmhudruðþúsund flínkari en ég í því að vera heimavinnandi. Eitt af því sem ég nenni allra síst, sem húsmóðir, er að ganga frá hreinum þvotti. Þess vegna er gjarnan hætta á skriðuföllum (þó sem betur fer af hreinu) í þvottahúsi mínu. Eftir fjóra daga af Heimavinnandi Húsföðurnum er óhreinatauskúturinn tómur og ekki ein einasta pjatla af allri fjölskyldunni ófrágengin. Maður þarf að leita með stækkunargleri til að finna drasl eða óhreinindi á heimilinu og hann hefur gert það nú í annað sinn að skipuleggja hvað á að vera í kvöldmatinn viku fram í tímann og gera innkaupalista í samræmi við það. Hefur greinilega þegar ákveðið að elda upp úr Silfurskeiðinni (svakalega stór og frábær matreiðslubók sem við fengum í jólagjöf frá nokkuð tíðum gistigestum sem ætla greinilega að fá almennilega að éta í næstu ferð, gefin út hjá Bjarti ;-) og hefur skrifað á matseðilinn á hvaða blaðsíðu uppskriftin er.

Vegna þess að hann er svo hroðalega duglegur þá fór ég snemma heim úr vinnunni og hleypti honum í babminton með Hagaskólagenginu.

Veisla fyrir afmælisbörn mánaðarins var annars á leikskóla Freigátunnar í dag. Hún fékk kórónu og fékk að hjálpa til við að baka köku. Sem hefur vonandi verið bökuð við góðan hita en sú stutta er kom heim með einhvern kvefskít í dag.

Rannsóknarskip og Hraðbátur fóru að hitta tvo félaga þess fyrrnefnda sem einnig eru í feðraorlofum þessa dagana. Þar hitti Hraðbátur tvær kærustur í einu, enda var hann svo uppgefinn að hann svaf óvenjulengi eftir hádegið.

Smábáturinn er í almennu hegðunar- og hlýðniátaki. Nauðsynlegt eftir jólaruglið. En það lofar afskaplega góðu.

Og Móðurskipið unir hag sínum fjarskavel hinumegin við hornið. Situr og einbeitir sér og hefur samskipti við annað fullorðið fólk oft á dag. Oft ókunnuga og gæti jafnvel farið að neimdroppa rithöfundum eins og vindurinn... ef það væri ekki svona líka algjörlega ókúl. Sérstaklega nú um stundir. Í kreppunni eru allir plebbar.

[Meðfylgjandi myndskreyting átti að fara með áramótakveðjunni. Meikaðist bara ekki að koma henni inn í tölvuna fyrr en núna.]

Engin ummæli: