23.1.09

Veikindi og spuni

Ég óska forsætisráðherra góðs bata.

En.

Tilkynnti utanríkisráðherra veikindi sín í beinni?
Eða fyrrverandi forsætisráðherra, þegar hann fékk krabbamein í miðju fjölmiðlafrumvarpi?

Þessi spunatilraun pirrar mig.

Staðreyndin er sú að formaður Sjálfstæðisflokksins verður frá vegna veikinda frá mánaðamótum og eitthvað áfram. Læknar eru bjartsýnir á að hann nái fullum bata. Svona veikindi ber hins vegar að taka alvarlega og manninum ber augsýnilega að taka sér frí frá störfum. Enda þykir mér afar ósennilegt að menn geti sinnt ábyrgðarstöðu með aðrar eins fréttir á bakinu. Og nú þarf, eins og forsætisráðherra hefur sjálfur margoft sagt, að takast á við mörg, stór og brýn verkefni. Það er jafnvel ámælisvert að hann skuli ekki hafa vikið strax og hann fékk þessar fréttir en vonandi er því um að kenna að hann hafi ekki hugsað skýrt. Vonandi var ekki ætlunin að nota þessar fréttir til að reyna að slá á óánægju í samfélaginu með því að vorkunnarblanda hana sektarkennd almúgans yfir að hafa veist að veikum manni.

Varaformaður Sjálfstæðisflokks tekur þá væntanlega við stjórnartaumum í flokknum og fær vonandi meiri frið til þess heldur en varaformaður Samfylkingarinnar.

Við skulum ekki persónugera vandann. Vandinn minnkar ekki við að persónur fari í veikindafrí.

Athugum að ríkisstjórnin er ekki farin frá.
Athugum að ekki er búið að boða formlega til kosninga.

Fréttirnar slá vafalaust á hina persónulegu heift í garð forsætisráðherra sem áberandi hefur verið í mótmælunum. En kröfurnar standa því enn hefur ekkert breyst í stjórn landsins, nema tímabundið og í forföllum.

Látum ekki slá ryki í augu byltingarinnar.

---

Ojújú. Nú berast þær fréttir að Geir Hilmar Haarde ætlar sér að sitja sem forsætisráðherra til vors. Og vefheimar eru að missa sig af meðaumkvun og fólk talar um að hætta að mótmæla. Ég horfi og horfi og sé ekki hvernig hann er orðinn minna vanhæfur nú en fyrir tveimur tímum síðan.

Ég óska spunameisturum Sjálfstæðistflokksins til hamingju með þennan áfangasigur.

En vona að þjóðin verði búin að ná áttum eftir þessa reyksprengju á morgun og mæti á Austurvöll.

8 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Alltaf tekst þér að gleðja mig -- eins og tahalað út úr mínu skrílslega hjarta! Viltu fara að tengja þig inn á blogggáttina - svo fleiri njóti. Lifi byltingin og vanhæf ríkisstjórn. INDRA

Sigurður Högni Jónsson sagði...

Ég var einmitt að hugsa þetta nákvæmlega sama. Takk fyrir að skrifa það.
Lifi byltingin!

Sigga Lára sagði...

Blogggáttina? Hvað er það?
*kemur af fjöllum*

Nafnlaus sagði...

http://blogg.gattin.is/
Bloggheimur í beinni!
indrí orange

Sigga Lára sagði...

Já, fannana. Og nú fyrst endanlega hætt að vinna í vinnunni.
Úff hvað maður verður að passa sig að fara ekki að lesa alla asnana. Eða munnhöggvast við þá.

Það er ekki einu sinni búið að boða formlega til kosninga!!!! Urrrrrr....

Nafnlaus sagði...

ég tek undir orð Sigurðar..... takk fyrir að skrifa þetta. halldóra óla

Julia sagði...

Halldóra Óla bendir á bloggið þitt, ég las og þakka fyrir færslu.
Viltu bæta í Orðabók Andskotans "Að æxla ábyrgð"
en við hjónin (sem þekkja þig ekkert) höfum rætt þá nýju merkingu í dag.
Bestu baráttukveðjur úr Köben og við treystum á fólk eins og þig að standa vaktina.

Hjörvar Pétursson sagði...

Heyr heyr Sigga Lára. Tók mér það bessaleyfi að hlekkja á þig úr eigin færslu, enda segirðu allt sem segja þarf.